Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
   fös 14. júní 2024 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Á þessum degi fyrir átta árum - Komu sér á heimskortið
Icelandair
Úr leik Íslands og Portúgal þann 14. júní 2016.
Úr leik Íslands og Portúgal þann 14. júní 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ronaldo og Aron Einar eftir leik.
Ronaldo og Aron Einar eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Evrópumótið í fótbolta hefst í kvöld þegar Þýskaland og Skotland eigast við í opnunarleiknum. Það er skemmtilegt að líta aðeins um öxl þegar nýtt Evrópumót er að fara af stað en á þessum degi fyrir átta árum spilaði íslenska karlalandsliðið sinn fyrsta leik á stórmóti.

Ísland mætti Portúgal í Saint-Étienne en það má segja að þarna hafi íslenska fótboltalandsliðið skráð sig á heimskortið.

Ísland fór mjög vel af stað í leiknum og strax á annari mínútu fékk Gylfi Þór Sigurðsson ágætis færi, en Rui Patricio, markvörður Portúgala sá við honum. Eftir það fóru Portúgalar að taka stjórnina. Nani fékk dauðafæri eftir hálftíma, en Hannes í markinu varði meistaralega frá honum. Stuttu eftir það tóku Portúgalar þó forystuna. Nani skoraði þá eftir fyrirgjöf frá Vierinha og markið verðskuldað.

Staðan í hálfleik var 1-0, en í upphafi þess seinni jafnaði Ísland metin. Jóhann Berg Guðmundsson átti fyrirgjöf frá hægri og þar var Birkir Bjarnason mættur og setti hann í netið; 1-1 og allt ætlaði um koll að keyra.Íslenska liðið barðist meistaralega það sem eftir var og Portúgalarnir áttu engin svör. Hreint út sagt mögnuð úrslit og ein þau stærstu í Íslandssögunni.

Ronaldo var brjálaður eftir leik
Það sem var ekki síst merkilegt við þetta kvöld voru viðbrögð Cristiano Ronaldo, eins besta fótboltamanns sögunnar, við jafnteflinu. Hann var vægast sagt ekki sáttur og gagnrýndi íslenska liðið fyrir fagnaðarlætin eftir leik.

Ronaldo tók ekki í hendur leikmanna Íslands og sagði svo: „Þeir fögnuðu eins og þeir hefðu unnið Evrópumótið. Það er hugsunarháttur þess litla. Þess vegna munu þeir aldrei vinna neitt."

Ronaldo og félagar enduðu á því að vinna Evrópumótið með ótrúlegum hætti en Ísland stal senunni á mótinu og komst alla leið í átta-liða úrslit, svo eftirminnilega.


Athugasemdir
banner
banner
banner