Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, gæti hafa stýrt landsliðinu í síðasta sinn en þetta segir spekingurinn og fyrrum landsliðsmaðurinn Alan Shearer.
Southgate stýrði Englendingum í úrslit Evrópumótsins í annað sinn í röð.
England tapaði í vítakeppni fyrir Ítalíu fyrir þremur árum og í kvöld tapaðist úrslitaleikurinn gegn Spánverjum, 2-1 í Berlín.
Shearer er á því að Southgate hafi stýrt sínum síðasta landsleik.
„Mig grunar að þetta hafi verið síðasti leikur Southgate. Það verða svakaleg vonbrigði heima fyrir. Já, við hefðum getað spilað sóknarsinnaðri fótbolta en þeir komust í úrslit. Þegar þú ert kominn þangað þá verður þú að koma þessu yfir línuna.“
„Raunveruleikinn er sá að hann kom okkur í úrslit fyrir þremur árum og aftur á þessu ári en vann ekki. Það mun særa hann og kannski telur hann að það sé kominn tími á að einhver annar taki við,“ sagði Shearer.
Southgate talaði við ITV eftir leik. Hann var spurður út í framtíðina en vildi ekki staðfesta neitt.
„Ég tel þetta ekki rétta tímann til að taka ákvörðun eins og þessa. Ég þarf að tala við rétta fólkið, en það verður ekki í dag,“ sagði Southgate.
Athugasemdir