Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 14. ágúst 2022 17:56
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: ÍBV niðurlægði FH - KA sigraði tíu Skagamenn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

ÍBV og KA unnu heimaleiki sína nokkuð þægilega í Bestu deildinni í dag. Eyjamenn fengu FH-inga í heimsókn úr Hafnarfirði og voru komnir í tveggja marka forystu eftir tæpan stundarfjórðung.


Halldór Jón Sigurður Þórðarson vann boltann af varnarmanni FH innan vítateigs og skoraði strax á níundu mínútu. Fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Eiður Aron Sigurbjörnsson forystuna með skalla eftir góða fyrirgjöf frá Atla Hrafni Andrasyni.

Hafnfirðingar fundu engin svör og kom þriðja mark Eyjamanna úr vítaspyrnu á 35. mínútu eftir að hendi var dæmd innan vítateigs. Andri Rúnar Bjarnason skoraði af vítapunktinum og við þetta virtust FH-ingar vakna til lífsins. Þeir fengu góð færi skömmu fyrir leikhlé en tókst ekki að minnka muninn fyrr en í síðari hálfleik.

Úlfur Ágúst Björnsson skoraði þá með skoti sem fór af varnarmanni og í netið. FH sótti mikið næstu mínúturnar í kjölfarið af þessu marki en gestirnir fengu fjórða markið í bakið sem batt enda á viðureignina. Felix Örn Friðriksson skoraði þá eftir frábært einstaklingsframtak þar sem hann lék illa á Ólaf Guðmundsson áður en hann skoraði.

Lokatölur á Hásteinsvelli 4-1 en Eyjamenn hefðu hæglega getað bætt einu eða tveimur mörkum við á lokakafla leiksins. Allt í rugli hjá FH sem þarf alvarlega að íhuga möguleika sína í fallbaráttunni.

ÍBV hefur verið að ná í góð úrslit að undanförnu og fjarlægist fallbaráttuna enn frekar með þessum sigri. Eyjamenn eru núna fimm stigum frá Leikni R. í fallsvæðinu á meðan FH er aðeins einu stigi fyrir ofan Leiknismenn, sem eiga leik til góða.

Lestu um leikinn

ÍBV 4 - 1 FH
1-0 Halldór Jón Sigurður Þórðarson ('9)
2-0 Eiður Aron Sigurbjörnsson ('13)
3-0 Andri Rúnar Bjarnason ('35, víti)
3-1 Úlfur Ágúst Björnsson ('62)
4-1 Felix Örn Friðriksson ('72)

Á Akureyri voru KA menn sterkari aðilinn gegn ÍA og einfölduðust hlutirnir þegar Hlynur Sævar Jónsson fékk beint rautt spjald fyrir að brjóta af sér sem aftasti varnarmaður. Það var Hallgrímur Mar Steingrímsson sem vann boltann ofarlega á vallarhelmingi gestanna og lét brjóta á sér.

Skagamenn voru því manni færri í góða klukkustund og réðu engan veginn við heimamenn eftir leikhléð.

Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði tvö og lagði eitt upp á síðustu 25 mínútum leiksins. Hann virðist algjörlega óstöðvandi þessa dagana og fundu tíu Skagamenn engin svör.

KA er í öðru sæti deildarinnar eftir sigurinn, fimm stigum eftir toppliði Breiðabliks sem á leik til góða.

Lestu um leikinn

KA 3 - 0 ÍA
1-0 Nökkvi Þeyr Þórisson ('68)
2-0 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('75)
3-0 Nökkvi Þeyr Þórisson ('86)
Rautt spjald: Hlynur Sævar Jónsson, ÍA ('34)


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner