mið 14. september 2022 21:11
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Haaland gerði sigurmarkið gegn Dortmund - Messi frábær í Ísrael
Erling Braut Haaland gerði auðvitað sigurmark Manchester City
Erling Braut Haaland gerði auðvitað sigurmark Manchester City
Mynd: EPA
Lionel Messi og Kylian Mbappe tengdu vel saman
Lionel Messi og Kylian Mbappe tengdu vel saman
Mynd: EPA
Neymar gerði þriðja mark PSG
Neymar gerði þriðja mark PSG
Mynd: EPA
Chelsea er aðeins með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina
Chelsea er aðeins með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina
Mynd: EPA
Benfica er i fínum málum en Juventus er það ekki
Benfica er i fínum málum en Juventus er það ekki
Mynd: EPA
Það var auðvitað skrifað í skýin að Erling Braut Haaland myndi gera sigurmark Manchester City gegn Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Enska liðið var einu marki undir þegar tíu mínútur voru eftir en náðu að snúa taflinu við og vinna 2-1 á Etihad-leikvanginum.

Fyrri hálfleikurinn fer ekki beint í sögubækurnar. Leikmenn City spiluðu boltanum mikið sín á milli en náðu ekki að skapa sér neitt af viti.

Haaland og Kevin de Bruyne voru alltaf klárir í hlaupin en leikmenn einfaldlega neituðu að lyfta boltanum yfir vörn Dortmund.

Í þeim síðari kom Dortmund sterkari til leiks. Marco Reus átti skot rétt framhjá markinu áður en Jude Bellingham kom gestunum yfir nokkrum mínútum síðar.

Dortmund fékk hornspyrnu sem var hreinsuð frá en Reus kom boltanum aftur inn í teiginn og þar var Bellingham klár í að afgreiða boltann í netið.

Heimamenn áttu í basli með að brjóta vörn Dortmund á bak aftur en John Stones fann leið. Hann ákvað að láta bara vaða fyrir utan teig þegar tíu mínútur voru eftir og söng boltinn svoleiðis í nærhorninu.

Man City nýtti sér meðbyrinn og var það auðvitað Haaland sem gerði sigurmarkið rúmum þremur mínútum síðar. Joao Cancelo kom með góða fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Haaland klippti boltann í netið. Glæsilegt mark gegn gömlu liðsfélögunum.

Julian Alvarez fékk fínt tækifæri til að gera út um leikinn undir lokin en Meyer sá við honum í markinu. 2-1 var nóg fyrir City og er liðið því með fullt hús stiga eftir tvær umferðir en Dortmund með þrjú stig í öðru sæti.

Ísak Bergmann Jóhannesson var í byrjunarliði FCK sem gerði markalaust jafntefli við Sevilla í Kaupmannahöfn. Þetta var ekki leikur sem bauð upp á mörg færi. Spænska liðið átti tvo fína sénsa í fyrri hálfleiknum en FCK virtist hreinlega bara sætta sig við stigið í kvöld.

Ísak fór af velli á 87. mínútu leiksins en hann hljóp mest allra í leiknum eða 11,81km. Hákon Arnar Haraldsson kom inná á 80. mínútu leiksins á meðan Orri Steinn Óskarsson var ónotaður varamaður. FCK og Sevilla eru bæði með eitt stig í G-riðli.

Jafntefli í fyrsta leik Potter - Messi magnaður

Graham Potter stýrði sínum fyrsta leik hjá Chelsea en lið hans gerði 1-1 jafntefli við RB Salzburg í E-riðlinum.

Raheem Sterling kom Chelsea yfir í byrjun síðari hálfleiks en liðið náði ekki að loka leiknum. Noah Okafor refsaði Chelsea með jöfnunarmarki fimmtán mínútum fyrir leikslok og lokatölur því 1-1 en Chelsea er aðeins með eitt stig eftir tvo leiki.

Lionel Messi skoraði fyrsta mark PSG og lagði upp annað í 3-1 sigri á Maccabi Haifa í H-riðli.

Maccabi komst óvænt yfir á 24. mínútu en Messi jafnaði áður en hálfleikurinn var úti. Hann lagði svo upp annað markið fyrir Kylian Mbappe áður en Neymar gulltryggði sigurinn. PSG með fullt hús eftir tvo leiki.

Juventus tapaði á meðan fyrir Benfica í sama riðli, 2-1. Arkadiusz Milik kom Juventus yfir en Joao Mario jafnaði úr vítaspyrnu. Það var svo David Neres sem náði í öll stigin fyrir Benfica. Juventus hefur tapað báðum leikjum sínum í riðlakeppninni á tímabilinu.

Evrópumeistarar Real Madrid unnu RB Leipzig, 2-0. Mörkin létu bíða eftir sér því það var ekki fyrr en á 80. mínútu sem Federico Valverde skoraði fyrir Madrídinga og í uppbótartíma gerði Marco Asensio annað mark liðsins. Real með fullt hús í F-riðlinum.

Napoli vann þá Rangers, 3-0, í A-riðli. Matteo Politano, Giacomo Raspadori og Tanguy Ndombele skoruðu mörkin. Napoli er efst í A-riðli með 6 stig en Liverpool kemur næst á eftir með 3 stig.

Úrslit og markaskorarar:

A-riðill:

Rangers 0 - 3 Napoli
0-0 Piotr Zielinski ('57 , Misnotað víti)
0-0 Piotr Zielinski ('60 , Misnotað víti)
0-1 Matteo Politano ('68 , víti)
0-2 Giacomo Raspadori ('85 )
0-3 Tanguy Ndombele ('90 )
Rautt spjald: James Sands, Rangers ('55)

E-riðill:

Chelsea 1 - 1 Salzburg
1-0 Raheem Sterling ('48 )
1-1 Noah Okafor ('75 )

F-riðill:

Real Madrid 2 - 0 RB Leipzig
1-0 Federico Valverde ('80 )
2-0 Marco Asensio ('90 )

G-riðill:

Manchester City 2 - 1 Borussia D.
0-1 Jude Bellingham ('56 )
1-1 John Stones ('80 )
2-1 Erling Haland ('84 )

FC Kobenhavn 0 - 0 Sevilla

H-riðill:

Juventus 1 - 2 Benfica
1-0 Arkadiusz Milik ('4 )
1-1 Joao Mario ('43 , víti)
1-2 David Neres ('55 )

Maccabi Haifa 1 - 3 Paris Saint Germain
1-0 Tjarron Chery ('24 )
1-1 Lionel Andres Messi ('37 )
1-2 Kylian Mbappe ('69 )
1-3 Neymar ('88 )

Athugasemdir
banner