Brynjólfur Willumsson kom gríðarlega sterkur inn af bekknum þegar Groningen gerði jafntefli gegn Feyenoord í hollensku deildinni í kvöld.
Feyenoord var með 1-0 forystu í hálfleik en Brynjólfur kom inn á þegar um 20 mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. Stuttu síðar var staðan orðin 2-0.
Brynjólfur minnkaði muninn undir lok leiksins og síðan í uppbótatíma bætti hann öðru markinu við og tryggði liðinu stig. Groningen er nýliði í efstu deild en liðið er með 9 stig í 4. sæti eftir fimm umferðir. Þetta voru fyrstu mörk Brynjólfs í deildinni.
Jason Daði Svanþórsson var í byrjunarliði Grimsby sem tapaði 2-1 gegn Barrow í C-deild á Englandi í dag. Barrow komst í 2-0 en Jason Daði lagði upp mark Grimsby undir lok fyrri hálfleiks. Grimsby er með sex stig eftir sex umferðir.
Elías Rafn Ólafsson var á sínum stað í markinu hjá Midtjylland þegar liðið vann FCK í dönsku deildinni. FCK var með forystu í hálfleik en Elíias Rafn náði ekki að verja vítaspyrnu frá Kevin Diks. Tvö mörk frá Midtjylland í seinni hálfleik tryggði liðinu 2-1 sigur. Rúnar Alex Rúnarsson var á bekknum hjá FCK.
Midtjylland er á toppnum með 20 stig een liðið er með fjögurra stiga forystu á AGF sem á leik til góða. FCK er í 4. sæti með 14 stig.
Júlíus Magnússon, fyrirliði Fredrikstad, var á sínum stað í byrjunarliðinu þegar liðið steinlá 6-1 gegn Molde í norsku deildinni. Liðið er í 5. sæti með 34 stig eftir 22 umferðir. Íslendingarnir í Kortrijk töpuðu 3-0 gegn Club Brugge í belgísku deildinni. Patrik Gunnarsson var í markinu hjá Frey Alexanderssyni. Liðið er með sjö stig eftir sjö umferðir í 13. sæti.
Þá spilaði Davíð Kristján Ólafsson allan leikinn þegar Cracovia vann Pogon Szczecin í pólsku deildinni. Liðið er í 2. sæti meeð 16 stig eftir átta umferðir.