Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   sun 15. febrúar 2015 14:10
Gísli Gíslason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Gróskan í knattspyrnunni og verkefnin sem blasa við
Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Úr leik í Pepsi-deild kvenna.
Úr leik í Pepsi-deild kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Um nýliðna helgi var haldið ársþing KSÍ og á föstudag málþing um stöðu kvenna innan íþróttahreyfingarinnar. Á þessum tveimur viðburðum var ýmislegt til umfjöllunar sem vekja má athygli á til viðbótar því sem fjölmiðlar mátu fréttnæmast.

Fyrst skal nefnt málþingið um stöðu kvenna innan íþróttahreyfingarinnar, en á fjölmennu málþingi um málefnið birtust sterk sjónarmið sem nauðsynlegt er að vinna með. Í ávarpi Borghildar Sigurðardóttur, formanns Breiðabliks komu fram sláandi tölur um rýran hlut kvenna hvort heldur er í stjórnum félaga og knattspyrnuhreyfingarinnar eða umfjöllun á opinberum vettvangi og í því efni vísaði hún til lítillar könnunar á umfjöllun fjölmiðils um konur í íþróttum í janúarmánuð. Eiríkur Stefán Ásgeirsson, formaður samtaka íþróttafréttamanna fjallaði um hvernig lestíðni frétta og "markaðurinn" beindu fréttum í karllægan farveg og Karen Aspelund, sem er eina konan í framkvæmdastjórn UEFA fjallaði um möguleika kvenna á að komast að í knattspyrnuhreyfingunni. Hún fjallaði einnig um mikilvægi þess að hlutur kvenna væri brýnn og nauðsynlegur m.a. til þess að knattspyrnuhreyfingin enduspeglaði mun betur fjölbreytt viðhorf sem með vaxandi fjölda kvenna í knattspyrnu, auknum áhuga almennings á knattspyrnu kvenna og ört vaxandi gæðum á þeim vettvangi.

Við verðum að viðurkenna að knattspyrnan er og hefur verið réttilega stimpluð sem umhverfi karla, en tímarnir breytast og við karlarnir verðum að taka mið af þeim jákvæðu og sjálfsögðu breytingum sem átta hafa sér stað með aukinn þátttöku kvenna í knattspyrnunni. Við getum stært okkur af því að gæðin í knattspyrnu kvenna hafa aukist gríðarlega og landsliðið okkar hefur haldið merki Íslands hátt á lofti. Það er því áskorun til kvenna að gefa sig að stjórnarstörfum í sínum félögum, dómgæslu, nefndarstörfum og stjórn KSÍ. Þær konur sem hafa fetað þá braut hafa unnið frábært starf, en við þurfum fleiri konur á allar vígstöðvar og við karlarnir eigum að skapa það umhverfi að leiðin verði greiðari en verið hefur. Fjölmiðlar geta líka tekið á árinni með aukinni umfjöllun um íþróttir kvenna - því slíkt mun aldrei valda hruni á lesendamarkaði heldur þvert á móti breikka sjónsvið fréttamanna og lesenda.

Í öðru lagi skal nefnd hér tillaga sem samþykkt var á ársþingi KSÍ um aðferðafræði við jöfnun ferðakostnaðar félaga. Þar er á ferðinni stórmerkileg samþykkt, sem byggir á niðurstöðu vinnuhóps sem Jóhannes Ólafsson í Vestmannaeyjum leiddi. Ársþingið samþykkti tillögu starfshópsins en skoðanir voru vissulega skiptar. Það hefur verið áratuga baráttumál félaganna á landsbyggðinni að komið sé til móts við þau sjálfsögðu sjónarmið að kostnaður þeirra af ferðalögum með íþróttahópa sé ekki sú girðing sem drepur íþróttastarf í dróma. Ferðasjóður ÍSÍ með framlagi ríkisins er skref í þá átt að koma til móts við þau félög sem mest þurfa að ferðast með hópa sína, en langt er í land að dugi þannig að fullri sanngirni sé náð. Nú hafa félög innan KSÍ samþykkt að í hverri landsdeild verði komið á ákveðnu jöfnunarkerfi, þar sem þau félög sem um skamman veg þurfa að fara, taka á sig skuldbindingar, sem létta kostnaði af þeim sem búa við löng og kostnaðarsöm ferðalög. Þetta fyrirkomulag er knattspyrnuhreyfingunni til mikils sóma að mínu viti þó svo að það sé aðeins lítið skref á þeirri vegferð að tryggja jafna aðstöðu íþróttafélaga til þátttöku í mótum og keppni. Slagurinn við hið opinbera um frekari aðkomu að þessum málum er síður en svo yfirstaðinn. Þess vegna er hér skorað á þingheim allan - og ekki síst þingmenn landsbyggðarinnar að beita sér nú af fullu afli til þess að réttlát niðurstaða fáist í ferðajöfnun félaga á landsbyggðinni. Það eru gríðarleg lífsgæði fólgin í því að haldið sé úti öflugu íþróttastarfi alls staðar á Íslandi - það á Alþingi að viðurkenna í verki og stíga til viðbótar þau skref sem duga.

Þriðja málið sem má nefna er samþykkt ársþings KSÍ um niðurfellingu virðisaukaskatts af íþróttamannvirkjum og íþróttastarfsemi. Rökin fyrir þeirri þingsályktunartillögu Willum Þórs Þorssonar eru svo augljós að Alþingi ætti ekki að vera í vandræðum að ljá henni atkvæði sitt. Aukin uppbygging íþróttamannvirkja og sterkari grundvöllur íþróttastarfseminnar, sem rekinn er af sjálfboðaliðum um allt land, hefur sýnt sig að vera mannbætandi og þjóðinni til sóma. Stígum því jákvæðu skrefin hratt og örugglega.

Gísli Gíslason
í stjórn KSÍ.
Athugasemdir
banner
banner
banner