Konate til PSG - Wirtz til City eða Bayern - Nico Williams velur Barcelona
   lau 15. febrúar 2025 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Deschamps: Veit ekki hvort Zidane vilji taka við franska landsliðinu
Mynd: EPA
Didier Deschamps landsliðsþjálfari Frakklands viðurkennir að hann viti ekki hvort gamli landsliðsfélagi sinn Zinedine Zidane hafi áhuga á að taka við franska landsliðinu þegar Deschamps hættir eftir næsta heimsmeistaramót.

Deschamps tilkynnti í janúar að hann mun hætta með franska landsliðið eftir HM en þá mun hann hafa verið við stjórnvölinn í fjórtán ár. Á þessum tíma hefur Frakklandi tekist að hreppa gull- og silfurverðlaun á HM, auk þess að enda í öðru sæti á EM 2016 og vinna Þjóðadeildina 2021.

Zidane hefur verið án þjálfarastarfs síðan hann hætti hjá Real Madrid í maí 2021. Það eru næstum liðin fjögur ár síðan en talið er að franska landsliðsþjálfarastarfið geti verið eitt af þeim fáu sem hann hefur áhuga á. Ýmis félagslið og landslið hafa sett sig í samband við Zidane á undanförnum árum, en alltaf hefur Frakkinn neitað.

„Zizou er frábær valkostur, það er eðlilegt að fólk búist við að sjá hann í þessu starfi. Ég veit samt ekki hvort hann hafi áhuga á þessu," sagði Deschamps.

Zidane stýrði Real Madrid í tvö og hálft ár frá 2016 til 2018 og tók svo aftur við félaginu árið 2019. Í seinna skiptið var hann í rétt rúmlega tvö ár í starfinu.

Zidane vann spænsku deildina tvisvar og Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð við stjórnvölinn hjá Real Madrid.
Athugasemdir
banner
banner
banner