Lækka verðmiðann á Garnacho - Arsenal hefur áhuga á Coman - Frankfurt setur verðmiða á Ekitike
   þri 15. apríl 2025 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Gagnrýna De Zerbi og Greenwood - „Hann er miðlungs leikmaður”
Mason Greenwood
Mason Greenwood
Mynd: EPA
Fyrrum landsliðsmennirnir Christophe Dugarry og Jeremy Rothen gagnrýndu Roberto De Zerbi og stjórn Marseille harðlega fyrir slakan árangur liðsins undanfarið á RMC Sport á dögunum.

De Zerbi var ráðinn síðasta sumar og fékk félagið marga góða leikmenn inn til þess að veita erkifjendunum í Paris Saint-Germain samkeppni um titilinn.

Marseille leit vel út fyrri part tímabilsins en hefur hrunið í seinni hlutanum og hefur PSG nú þegar tryggt sér titilinn.

Lærisveinar De Zerbi hafa aðeins unnið tvo af síðustu sjö leikjum sínum og setja fyrrum landsliðsmenn Frakklands, þeir Dugarry og Rothen, stórt spurningarmerki við De Zerbi, stjórnina og jafnvel kaupin á þeim Mason Greenwood og Pierre-Emile Höjbjerg.

„Allir eru ábyrgir. Við vorum spenntir fyrir Greenwood og Höjbjerg, en báðir eru miðlungsleikmenn. Það er undir De Zerbi komið að finna lausn á vandamálinu, en hann hefur ekki fundið hana enn,“ sagði Rothen.

Dugarry var nokkuð sammála Rothen en benti þó aðallega á De Zerbi og Mehdi Benatia.

„Ég skelli skuldinni á Benatia (yfirmanni íþróttamála hjá Marseille). De Zerbi er sá sem ber mesta ábyrgð og reyndu leiðtogarnir allt sem þeir gátu til þess að hann næði árangri. Hann var kynntur sem bjargvættur félagsins, en hefur ekki fært liðinu neitt,“ sagði Dugarry.

Frammistaða Greenwood hefur verið gagnrýnd í frönskum miðlum og einnig af De Zerbi. Hann er samt sem áður markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu með 17 mörk í deild- og bikar og talið líklegt að hann færi sig um set í stærra félag í sumarglugganum.
Athugasemdir
banner
banner