Þorri Mar Þórisson var utan hóps þegar Stjarnan tók á móti ÍA í 2. umferð Bestu deildarinnar í gær, en hann var ónotaður varamaður í 1. umferðinni. Dalvíkingurinn kom til Stjörnunnar frá sænska félaginu Öster í vetur.
Í hlaðvarpsþættinum Dr. Football á sunnudag var Þorri orðaður í burtu frá Stjörnunni. „Þorri Mar er víst ekki í myndinni og einhver lið eru að skoða hann," sagði Hjörvar Hafliðason.
Í hlaðvarpsþættinum Dr. Football á sunnudag var Þorri orðaður í burtu frá Stjörnunni. „Þorri Mar er víst ekki í myndinni og einhver lið eru að skoða hann," sagði Hjörvar Hafliðason.
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var spurður út í Þorra í viðtali í gær og hvort möguleiki væri á því að hann gæti verið á útleið.
„Ég held að það séu engar líkur á því. Hann var geggjaður í dag, fagnaði manna mest. Hann var mættur inn í klefa fyrir leik, hálfleik og fyrstur út á völl eftir leik. Hann er ennþá að komast inn í hlutina hjá okkur. Hann á eftir að verða yfirburðar bakvörður í þessari deild. Það verður gaman að fylgjast með honum," sagði Jökull.
Hann var spurður hvers vegna Þorri var ekki í hópnum.
„Hann er ennþá að komast inn í hlutina, er eiginlega ekkert flóknara en það. Hann var í hóp síðast en ekki núna. Í báðum leikjunum tók ég ákvörðun að vera með einn varnarmann á bekknum, það breyttist síðast þegar Emil (Atlason) datt út. Aðeins 'rotation' núna, Þorri fór út og Siggi (Sigurður Gunnar Jónsson) kom inn. Svo er það bara áfram gakk. Ég held og vona að hann sýni því bara skilning, Þorri var frábær hérna í dag," sagði Jökull.
Stjarnan er með fullt hús stiga í Bestu deildinni eftir tvær umferðir. Næsti leikur liðsins er bikarleikur gegn Njarðvík á föstudag.
Athugasemdir