Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mán 15. maí 2023 11:27
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Finnur Orri baðst afsökunar - Gísli ekki brotinn en á leið í aðra myndatöku
Tæklingin í gær.
Tæklingin í gær.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Sést á Gísla að þetta var mjög sársaukafullt.
Sést á Gísla að þetta var mjög sársaukafullt.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Finnur Orri Margeirsson, leikmaður FH, fékk beint rautt spjald í gær þegar hann tæklaði og fór í ökklann á Gísla Gottskálk Þórðarsyni, átján ára leikmanni Víkings.

Finnur var á gulu spjaldi en dómari leiksins, Pétur Guðmundsson, mat brotið þannig að það verðskuldaði rauða spjaldið. Gísli þurfti að fara af velli vegna meiðslanna og gat ekki stigið í fótinn.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 -  0 FH

Fótbolti.net ræddi við Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Víkings, í dag og spurði út í stöðuna á Gísla.

Sjá einnig:
„Þeir voru bara að reyna að meiða menn“

„Gísli fór í myndatöku í gærkvöldi og hann er að minnsta kosti óbrotinn. Það er grunur um liðböndin en hann þarf að komast í MRI (segulómun) annað hvort í dag eða á morgun til að fá úr því skorið hvort að það sé slitið eða ekki. Það gæti verið að það sé eitthvað bólgutengt og það þurfi að líða einhver smá tími svo bólgan hjaðni áður en hann fer í myndatöku," sagði Arnar.

„Það yrði versta niðurstaðan úr þessu, ef eitthvað slitnaði. Það er gott að hann var ekki brotinn."

Arnar sagði frá því að Finnur Orri hefði komið til Víkinga eftir leik og beðið þá afsökunar á tæklingunni.

„Finnur kom til okkar eftir leikinn, inn á skrifstofu og til stákana og baðst afsökunar. Það var hrikalega vel gert hjá honum. Þar með er því máli bara lokið," sagði Arnar.

Gísli er átján ára miðjumaður og er hluti af U19 landsliðinu sem er á leið í lokakeppni EM í júlí.

Ari að snúa til baka
Ari Sigurpálsson mun snúa aftur í hóp Víkings fyrir bikarleikinn gegn Gróttu núna í vikunni. Hann hefur misst af byrjun mótsins vegna meiðsla.

„Hann er að koma inn í hópinn og fær vonandi mínútur á móti Gróttu."

„Við erum að reyna passa upp á hann, en það er erfitt núna. Hann vill fara fá mínútur, en við erum að reyna hemja hann aðeins. Ef allt gengur upp þá fær hann vonandi einhverjar mínútur á móti Gróttu."
sagði þjálfarinn.

Leikurinn gegn Gróttu fer fram á fimmtudaginn á Víkingsvelli. Næsti deildarleikur er svo gegn HK í Kórnum á sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner