Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mán 15. október 2018 09:30
Jóhann Már Helgason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Goðsögnin John Terry
Jóhann Már Helgason
Jóhann Már Helgason
Terry var mikill leiðtogi.
Terry var mikill leiðtogi.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Það er 7. mars 2005, við erum stödd í leik Chelsea gegn Barcelona. Það er 76. mínúta, staðan er 3-2 og Chelsea vantar eitt mark til þess að slá Barcelona út úr 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Damien Duff undirbýr sig að taka hornspyrnu, spyrnan er góð með snúning út í vítateiginn, John Terry hleypur á móti boltanum stekkur í loftið og nær frábærum skalla að markinu með því að skera boltann í fjærhornið, Victor Valdes gerir allt sem í sínu valdi stendur til að verja boltann en allt kemur fyrir ekki - boltinn syngur í netinu. John Terry hefur sagt að þessi sigur á Barcelona sé sá sætasti sem hann hafi nokkurtíma unnið á sínum knattspyrnuferli.

John Terry tilkynnti í síðustu viku að skórnir víðfrægu væru farnir upp á hilluna. Þar með kveður einhver farsælasti leikmaður í sögu enskrar knattspyrnu stóra sviðið. Terry er engu að síður ekki að kveðja knattspyrnuheiminn, hann hefur margoft sagt frá því að hann hyggur á feril í þjálfun og að draumur hans sé einn daginn að stýra Chelsea. Í þessum pistli ætla ég að skauta yfir feril Terry - besta fyrirliða í sögu Chelsea Football Club.

Áhuginn kviknar
John Terry fékk strax frá blautu barnsbeini gríðarlegan áhuga á knattspyrnu. Faðir hans og eldri bróðir voru einnig miklir fótboltafíklar svo það lá beinast við að Terry færi að æfa fótbolta. Fyrsta liðið sem Terry æfði með var Senrab FC en þangað mætti hann á sína fyrstu æfingu aðeins 5 ára gamall. Senrab er hverfislið þar sem er rekið öflugt barna- og unglingastarf, margir leikmenn úr ensku Úrvalsdeildinni hafa slitið barnskónum þar á bæ og ber þar helst að nefna þá Sol Campbell, Jermain Defoe, Bobby Zamora, Ledley King og Jlloyd Samuel (ásamt auðvitað Terry).

Strax á fyrstu árum sínum í knattspyrnu sýndi Terry gríðarlegan sigurvilja og leiðtogahæfileika - eitthvað sem átti eftir að einkennandi fyrir hans persónu og leikstíl. Á þessum uppvaxtarárum sínum spilaði hann sem miðjumaður og þótti strax mikið efni. Senrab var og er enn þann dag í dag nokkurs konar vennslafélag við unglingaakademíu West Ham United. Þannig að efnilegustu leikmenn Senrab fengu tækifæri til að sýna sig sig fyrir þjálfurum West Ham og slíkt tækifæri fékk Terry þegar hann var 11 ára gamall. West Ham buðu Terry umsvifalaust að æfa með akademíu félagsins sem Terry að sjálfsögðu þáði enda mikil viðurkenning að vera hjá slíku liði á þessum aldri.

John Terry var í akademíu West Ham í tæp fjögur ár, hann þótti þokkalegur miðjumaður - ekkert meira en það. Hann sýndi þó alltaf mikla leiðtogahæfileika og metnað til að ná lengra. Það var svo um sumarið 1995, þegar Terry var 14 ára að Chelsea bauð honum að koma og æfa í akademíu félagsins. Í fyrstu var Terry ekki viss um það væri rétt skref, á þessum tíma var West Ham þekkt fyrir að gefa ungum leikmönnum tækifæri og þeir vildu halda honum. Terry ákvað þó að slá til og hefur síðar sagt að það var besta ákvörðun sem hann hefur tekið á ævinnni.

Á þessum tíma var Terry enn þá að spila sem miðjumaður en það breyttist árið 1996. Þá voru mikil forföll í vörninni hjá unglingaliði Chelsea og Terry var fenginn til að spila þar nokkra leiki. Terry sló í gegn og segja má að þarna hafi ferill hans farið af stað fyrir einhverja alvöru. Terry skrifaði undir unglingasamning við Chelsea og blómstraði í akademíu félagsins. Þegar Terry varð svo 17 ára gamall skrifaði hann undir alvöru atvinnumanna samning - Ferill hans hjá Chelsea var kominn á skrið.

Terry brýst inn í liðið
Fyrsti leikur Terry með aðalliði Chelsea kom 26. október 1998 þegar Terry var einungis 17 ára gamall. Leikurinn var gegn Aston Villa í deildarbikarnum og kom Terry inn á sem varamaður þegar nokkrar mínútur voru til til leiksloka. Þetta sama tímabil fékk Terry svo að byrja sinn fyrsta leik en það var FA Cup leikur gegn Oldham sem Chelseea vann 2-0. Alls lék Terry 7 leiki fyrir Chelsea tímabilið 1998/1999. Ári síðar var ákveðið að lána okkar mann til Nottingham Forrest til að öðlast reynslu. Terry lenti því miður í meiðslum á þessum tíma en spilaði þó 6 leiki með Forrest fyrir jól og þótti standa sig svo vel að bæði David Platt þáverandi þjálfari Forrest og Steve Bruce sem þá var þjálfari Huddersfield reyndu að kaupa hann en Chelsea neitaði því staðfastlega. Síðari hluta tímabilsins 1990/2000 eyddi Terry hjá Chelsea og spilaði 6 leiki.

Terry sló svo í gegn tímabilið 2000/01. Gianluca Vialli var þá þjálfari liðsins en liðið fór illa af stað og Ken Bates ákvað að reka Vialli og ráða Claudio Ranieri. Þetta sama sumar gerðu Chelsea kaup á tveimur sóknarmönnum, þeim Jimmy Floyd Hasselbaink og Eiði Smára Guðjohnsen og mynduðu þeir fljótlega baneitraðan sóknardúett. Á þessum tíma voru Chelsea ágætlega mannaðir í miðvarðastöðunum með Frakkana Frank Leboeuf og Marcel Desailly sem fyrsta valkost. Terry tókst engu að síður að brjóta sér leið inn í liðið, að hluta til vegna meiðsla Leboeuf, en einnig vegna þess að hann var að spila frábærlega í hvert skipti sem hann steig inn á völlinn. Terry hefur síðar tjáð sig um að hann naut þess verulega að spila undir handleiðslu Desailly sem var þarna einn af bestu miðvörðum heims og gríðarlega mikilvægur Chelsea.

Þetta sama tímabil skoraði Terry sitt fyrsta mark fyrir Chelsea það gerði hann í útileik gegn Arsenal þann 13. janúar 2001. Robert Pires kom Arsenal yfir strax á 3. mínútu en Terry gerði sér lítið fyrir og jafnaði metin á 62. mín og leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Chelsea endaði þetta tímabil í 6. sæti með 61. stig. Terry sjálfur spilaði 22 leiki í deildinni og 26 í það heila. Terry var valinn leikmaður ársins hjá Chelsea þetta tímabilið.

Tímabilið 2001/02 má segja að Terry hafi endanlega fest sig í sessi sem byrjunarliðsmaður hjá Chelsea. Sú breyting varð á að Frank Leboeuf yfirgaf félagið og keyptu Chelsea William Gallas í staðinn. Leboeuf fór fögrum orðum um Terry er hann var seldur og sagði hann vera framtíð Chelsea holdi klædd. William Gallas hafði þann kost að geta spilað sem bakvörður og gerði það að miklu leiti fyrstu árin sín hjá Chelsea. Þar með opnaðist bein leið fyrir Terry inn í byrjunarliðið og spilaði hann í það heila 47 leiki fyrir Chelsea þetta tímabilið. Aftur enduðu Chelsea í 6. sæti í deildinni en komust þá í úrslitaleik FA bikarsins gegn sterku liði Arsenal. Nóttina fyrir úrslitaleikinn veiktist John Terry og var verulega slappur á sjálfum leikdeginum. Ranieri átti ekki annara kosta völ en að taka Terry úr liðinu, þegar Terry komst að þessu fór hann að hágráta enda draumur hvers leikmanns að spila úrslitaleik á Wembley leikvanginum. Terry kom þó inn á sem varamaður í leiknum en tókst ekki að koma í veg fyrir 2-0 tap í leik þar sem okkar besti maður, Hasselbaink, var einnig að spila meiddur.

Roman Abramovich og Jose Mourinho
Tímabilið 2002/03 var Terry mikið meiddur og spilaði ekki nema 22 leiki í deildinni. Það tímabil var það síðasta sem liðið var í eigu Ken Bates. Chelsea náði góðum árangri á þessu tímabili og enduðu í 4. sæti eftir að hafa sigrað Liverpool í lokaleik tímabilsins. Þegar þarna var komið við sögu var Chelsea í gríðarlegum fjárhagserfiðleikum og þurfti nauðsynlega að komast í Meistaradeildina til þess að lenda hreinlega ekki í gjaldþroti. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar fréttir bárust að því að Chelsea hafði verið keypt af rússneskum milljarðamæringi - Roman Abramovic.

Abramovich gjörsamlega dældi peningum í Chelsea liðið sem var nú með þokkalegan hóp fyrir. Strax á fyrsta tímabili komu stórstjörnur eins og Veron, Mutu, Duff, Makelele, og Crespo ásamt öðrum yngri leikmönnum eins og Joe Cole, Glen Johnson og Geremi. Allt þekktir leikmenn sem höfðu gert það gott í Evrópu. Á einu augabragði fór Chelsea úr því að vera lið í fjárhagserfiðleikum yfir í það vera einn ríkasti klúbbur heims. Þetta sumar var líka viðburðaríkt fyrir Terry sem þarna spilaði sinn fyrsta landsleik í júní 2003 gegn Serbíu og Svartfjallalandi.

Terry var þarna orðinn alger lykilmaður í vörn Chelsea og segja má að dæmið hafi snúist við gagnvart honum og Desailly þar sem Frakkinn var farinn að eldast, Terry var hægt og bítandi að taka við sem leiðtoginn í vörninni. William Gallas lék þeim mun meira sem miðvörður og náðu hann og Terry vel saman. Fyrir þetta tímabil gerði Ranieri Terry að varafyrirliða og segja má að hann hafi verið fyrirliði liðsins inni á vellinum þetta tímabilið þar sem Desailly lék ekki nema 15 leiki í deildinni. Chelsea stóð sig ágætlega á þessu tímabili en væntingarnar til liðsins voru auðvitað miklar eftir öll leikmannakaupin. Chelsea endaði í 2. sæti deildarinnar en var heilum 11 stigum á eftir hinu ósigrandi liði Arsenal. Liðið fór líka alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar en tapaði þar illa í einvígi gegn Monaco. Þessi árangur var ekki nægilega góður fyrir Abramovich sem rak Ranieri og réði Portugalann Jose Mourinho.

John Terry var eitt sinn beðinn um að lýsa Jose Mourinho sem persónu og þjálfara. Terry vafst ekki tunga um tönn, hann sagði strax að hann væri besti knattspyrnustjóri heims. Hann sagði einnig að Mourinho fengi leikmenn til þess að trúa því að þeir væru bestir og enginn ætti að geta sigrað þá ef þeir sjálfir (leikmennirnir) myndu spila á sinni eðlilegu getu. Terry bætti svo að hann hefði stokkið fyrir járnbrautalest ef Mourinho hefði bara beðið hann um það. Á árunum 2004-2006 voru Chelsea nánast ósigrandi.

Með Mourinho við stjórnvölinn varð Chelsea að einu besta félagsliði heims, á sínu fyrsta tímabili rótburstuði Chelsea ensku Úrvalsdeildina, settu stigamet og fengu aðeins á sig 15 mörk, met sem líklega aldrei verður slegið. John Terry átti stórkostlegt tímabil. Hann var þarna orðinn fastamaður í vörn enska landsliðsins og var valinn leikmaður ársins af leikmönnunum sjálfum, hann var jafnfram fyrsti varnarmaðurinn til að vinna þessi verðlaun í 10 ár. Þetta árið vann Chelsea einnig enska Deildarbikarinn og lauk því tímabilinu með tvo titla.

Chelsea hélt uppteknum hætti árið eftir. Segja má að annar meistaratitillinn hafi aldrei verið í hættu eftir frábæra byrjun á tímabilinu en þá vann Chelsea átta fyrstu leikina á tímabilinu. Chelsea datt hins vegar út úr báðum bikarkeppnunum og einnig úr Meistaradeild Evrópu í 16. liða úrslitum (þar sem Barcelona náði fram hefndum frá árinu áður). Terry hélt uppteknum hætti frá árinu áður, var besti varnarmðaur Englands, fastamaður í landsliðinu og spilaði flesta leiki Chelsea. Inni á vellinum var Terry hershöfðinginn hans Mourinho og það duldist engum hversu vel þessir tveir náðu saman.

Á þessum árum myndaði Terry miðvarðarpar með hinum portugalska Ricci Carvalho. Flestir eru sammála um að Terry sé besti varnarmaður í sögu Chelsea en það er bjargfast mat höfundar að Ricci Carvalho er næsti besti varnarmaður í sögu Chelsea. Þessir tveir leikmenn vógu hvorn annan fullkomlega upp, Terry stór og sterkur en einnig með gríðarlegan skilning á leiknum. Carvalho er öskufljótur og villtari miðvörður sem gat hreinlega límt sig á mótherja sína og verið þannig með þá í vasanum heilu leikina. Vinstra megin í vörninni var svo William Gallas sem var klárlega að spila úr stöðu en var bara svo skelfilega góður varnarmaður að það var ekki nokkur leið að spila honum ekki. Hægri bakvörður var svo hinn stöðugi og vanmetni Paulo Ferreira. Í búrinu var svo besti markvörður í sögu Úrvalsdeildarinnar Petr Cech. Það væri svo ósanngjarnt að minnast ekki á hlut Claude Makelele í þessum frábæra varnarárangri. Á þessum árum bjó hann til hina svökölluðu "Makelele-role" sem er efni í annan pistil við tækifæri. Þessir leikmenn voru potturinn og pannan í því að Chelsea fékk varla á sig mark á árunum 2004-2006.

Mourinho ákvað því að hrista upp í leikmannahópnum fyrir tímabilið 2006-07. Ástæðan var einföld, Roman Abramovic vildi vinna Meistaradeildina og var tilbúinn að eyða háum fjárhæðum til að láta það gerast. Þetta sumarið fékk Chelsea til liðs við sig Andriy Shevchenko, Michael Ballack og Ashley Cole. Mourinho fór að hræra í leikkerfinu, spilaði 4-4-2 með demantsmiðju. Við þetta hikstaði Chelsea, sérstaklega framan af tímabilinu. Terry og Carvalho voru þó enn mjög öflugir í vörninni en liðinu mistókst að vinna ensku Úrvalsdeildina þriðja árið í röð en unnu þó bæði enska FA bikarinn og Deildarbikarinn. Chelsea datt svo út, í annað sinn á þremur árum, gegn Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, í þetta sinn í vítaspyrnukeppni.

Það hefur oft verið talað um að Mourinho geti bara verið með lið í þrjú ár og svo ekki meir. Mourinho endist alla vega ekki lengi á sínu fjórða ári hjá Chelsea. Hann var rekinn í lok september árið 2007 eftir að tímabilið hafi farið illa af stað. Hann lenti upp á kant við Roman Abramovich sem gerði sér lítið fyrir og rak þann mann sem hafði breytt Chelsea úr ríku liði yfir í besta lið Englands undanfarin ár.

Terry tók þessum fregnum gríðarlega illa og er sagt að bæði Terry og Lampard hafi þurft að þerra tárin úr augum sínum þegar Mourinho kom að kveðja leikmannahópinn. Við keflinu tók hinn ísraelski Avram Grant. Flestir stuðningsmenn Chelsea bera takmarkaða virðingu fyrir Grant kallinum en honum tókst þó að gera nokkuð sem Mourinho hafði ekki tekist, að koma liðinu í Úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Allir þekkja söguna af þeim leik, þar mættust tvö virkilega góð ensk lið. Chelsea keyrt áfram af Terry, Lampard, Drogba, Essien og Ballack. Man Utd var sömuleiðis með frábært lið þar sem Ronaldo, Rooney, Tevez, Rio Ferdinand og Vidic voru lykilmenn.

Terry átti marga hátinda á sínum ferli, en úrslitaleikurinn í Moskvu var sennilega einn af lágpunktunum þar sem okkar maður tók víti til að tryggja Chelsea sinn fyrsta Meistaradeildartitil. Terry rann í aðhlaupinu og boltinn skaust yfir markið. Þetta getur gerst fyrir alla og þetta gerðist fyrir Terry á þessum tímapunkti. Það var sárt. Terry gat samt vel við unað, spilamennskan hans var frábær þetta tímabilið, hann var valinn í FIFPro lið ársins sem valið er af FIFA og var einnig valinn besti varnarmaður Meistaradeildarinnar.

Stórveldið Chelsea
Í kjölfar brotthvarfs Mourinho og Avram Grant réð Chelsea Luiz Scholari sem þá var búinn að ná góðum árangri með Brasilíu og Portúgal. En þrátt fyrir góða byrjun endist Scholari ekki lengi við stjórnvölinn og enn og aftur sýndi Roman Abramovich klærnar með því að reka "Big-Phil" í febrúar 2009.

Í stað Scholari kom hinn áreiðanlegi Guus Hiddink. Hollendingnum Hiddink tókst að snúa gengi Chelsea við og lék liðið frábærlega síðustu mánuði tímabilsins með Terry, Lampard, Drogba og Nico Anelka í fantaformi. Á þessum tíma var Terry mikið að spila með Brassanum Alex í vörninni þó svo að Ricci Carvalho væri aldrei langt undan. Þetta tímabil fer helst í sögubækurnar fyrir einvígið sem Chelsea átti við Barcelona og hvernig einum manni, Tom Henning Øvrebø, tókst að eyðileggja vonir Chelsea um að komast annað árið í röð í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með því að sleppa því að dæma þrjár augljósar vítaspyrnur. Á þessum tíma voru Barcelona með stórkostlegt lið og léku undir stjórn Pep Guardiola. Chelsea voru betri en þeir og akkurat á þessum tíma voru Terry, Lampard, Drogba, Cech ofl leikmenn á hátindi feril síns. Annað árið í röð var Terry valinn besti varnarmaður Meistaradeildarinnar sem sýndi í raun og veru að Terry var besti miðvörður heims á þessum tíma.

Guus Hiddink var bara tímabundin ráðning, í hans stað kom hinn afar geðþekki Carlo Ancelotti. "Lotti" eins og undirritaður hefur ávallt kallað hann tókst með sinni fáguðu nálgun að ná því besta fram úr þessu frábæra liði Chelsea. Strax á fyrsta tímabilinu lyfti hann bæði Englandsmeistaratitlinum og enska FA bikarnum. Aldrei áður hafði þjálfara tekist að vinna tvennuna með Chelsea. Terry spilaði 37 af 38 leikjum í deildinni og var í raun frábær, Carvalho og Alex héldu áfram að skipta leikjunum á milli sín við hlið Terry en þetta var hins vegar síðasta tímabil Carvalho sem var seldur til Real Madrid.

Tímabilið 2010/11 tókst Ancelotti ekki að byggja ofan á frábæran árangur tímabilsins á undan. Chelsea áttu afleiddan nóvember mánuð og náðu í raun aldrei vopnum sínum almennilega eftir það. Félagið keypti í janúar 2011 þá David Luiz og Fernando Torres, við þekkjum öll söguna með Torres greyið. Chelsea tókst þó að lenda í 2. sæti með flottum lokakafla en duttu út úr 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn Man Utd. Þarna tók Abramovic þá afleiddu ákvörðun um að reka Ancelotti og ráða í stað þess 34 ára gamlan þjálfara að nafni André Villas-Boas.

Það er til málsháttur sem segir að nóttin sé alltaf dimmust rétt fyrir dögun. Slík orð áttu vel við um Chelsea tímabilið 2011/12. Villas-Boas var einfaldlega númeri of lítill fyrir búningsklefa Chelsea. Hann náði ekki að sannfæra bestu leikmennina um ágæti sitt og þeirra á meðal var Terry. Chelsea voru bara miðlungs góðir allt tímabilið og var staðan orðin mjög dökk þegar komið var fram í byrjun marsmánaðar. Þá var Abramovich nóg boðið og lét AVB taka pokann sinn. Roberto Di Matteo, gamall liðsfélagi Terry hjá Chelsea tók við keflinu. Með allri minni virðingu fyrir Di Matteo og hans afrekum hjá Chelsea að þá má alls ekki gera lítið úr þætti John Terry hjá Chelsea á þessum tíma. Þarna var búið að vera mikið umrótarástand í langan tíma og Di Matteo var fimmti þjálfarinn á fjórum árum. Því hefur verið fleygt fram að Terry hafi haldið saman búningsklefanum á þessum tíma og í raun verið andlegur leiðtogi liðsins, innan vallar sem utan. Di Matteo gerði hið hárrétta í stöðunni, hann fékk menn til að brosa aftur og leyfði stórum karakterum eins og Terry, Lampard og Drogba að njóta sín og taka ábyrgð.

Chelsea átti frábæran endasprett í Meistaradeildinni, þar sem Terry tókst þó að verða skúrkurinn í seinni leiknum gegn Barcelona í sjálfum undanúrslitunum. Dómgreindarleysi gerði það að verkum að Terry braut illa á Alexis Sanchez og fékk umsvifalaust beint rautt spjald. Þrátt fyrir þetta tókst Chelsea að komast í gegnum leikinn með lygilegri frammistöðu og stórfenglegum mörkum frá Ramires og Torres.

Það gleymist oft í þessari umræðu um Terry að hann var líklega maður leiksins í fyrri leik liðanna á Stamford Bridge, í leik sem Chelsea vann 1-0. Þar hélt hann Messi niðri sem lagði grunninn að sigrinum í einvíginu. Terry var að sjálfsögðu banni þegar Chelsea gerði sér lítið of vann FC Bayern í vítaspyrnukeppni - Terry tókst þó að komast í sviðsljósið þegar hann mætti til að taka á móti Meistaradeildartitlinum í fullum skrúða, þ.e. í búningi þrátt fyrir að hafa verið í jakkafötum á meðan leiknum stóð. Þetta þótti mönnum fyndið en er að mörgu leiti skiljanlegt líka.

Í kjölfarið á Meistaradeildartitlinum fékk Di Matteo tveggja ára samning. Maður hafði það samt alltaf á tilfinningunni að Abramovich treysti "Robbie" ekki fullkomlega og sú varð reyndar raunin. Di Matteo tókst engan vegin að halda uppteknum hætti með liðið og var hann látinn taka pokann sinn eftir að liðinu mistókst að komast upp úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar - var Chelsea þannig fyrsta liðið sem er handhafi bikarsins sem kemst ekki í útsláttarkeppnina. John Terry var alltaf fastamaður hjá Di Matteo en það átti eftir að breytast hjá nýjum þjáfara liðsins.

Einhver umdeildasta ráðning á þjálfara Chelsea hlýtur að vera þegar Roman Abramovich fékk Rafa Benítez til þess að taka við félaginu í lok nóvember 2012. Rafa var með eindæmum óvinsæll á Stamford Bridge eftir að hafa verið þjálfari Liverpool um langt skeið auk þess sem hann móðgaði áhorfendur Chelsea þegar hann gerði gis að þeim fyrir að vera með plast fána á leikjum í Meistaradeildinni. Benítez bætti svo gráu ofan á svart þegar hann ákvað að vera með rautt bindi á hliðarlínunni í sínum fyrsta leik. Í fyrsta sinn á ferli sínum lenti John Terry á vegg. Rafa Benítez tók þá umdeildu ákvörðun um að hafa Terry ekki sem fyrsta kost í vörnina. Rafa kaus að spila Ivanovic og Cahill eða Cahill og Luiz sem miðverði og skildi Terry oftar en ekki úti í kuldanum. Terry lék aðeins 14 leiki í ensku Úrvalsdeildinni þetta tímabilið. Rafa náði ágætis árangri með Chelsea, landaði 3. sæti í deildinni og vann Evrópudeildina - aftur stal Terry senunni með því að mæta kappklæddur í treyjunni til þess að taka á móti bikarnum þrátt fyrir að hafa ekki verið í hópnum vegna meiðsla.

Endurkoma Mourinho
Þó að Benítez hafi náð að vinna titil með Chelsea var öllum ljóst að hann fengi ekki starfið til frambúðar. Strax á vordögum fóru að berast fregnir frá Spáni þess efnis að José nokkur Mourinho stefndi ótrauður á endurkomu til Chelsea. Þetta var svo staðfest um sumarið og segja má að Terry hafi þarna gengið í gegnum endurnýjun lífdaga.

Mourinho gerði Terry það strax ljóst að hann myndi ekki velja Terry í liðið á einhverri frændhyggli, heldur þyrfti hann að sanna sig eins og allir aðrir. Hér var Terry orðinn 33 ára og einhverjir farnir að efast um hann. En eins og sönnum sigurvegara sæmir steig Terry upp og var alger lykilmaður hjá Mourinho frá fyrsta degi. Á sínu fyrsta tímabili til baka lenti Chelsa í 3. sæti og fór alla leið í undanúrslit Meistaradeildarininar. Flesti voru sammála um að Chelsea væru á réttri leið með unga og efnilega leikmenn eins og Hazard og Oscar fram á við. Chelsea vantaði samt örlítil gæði. Þau gæði komu sumarið 2014 þegar Chelsea gerði frábært mót á leikmannamarkaðinum og nældi sér í Diego Costa og Cesc Fabregas. Einnig snéri Thibaut Corutois til baka úr láni. Chelsea voru tilbúnir og tóku næsta tímabil með trompi. Chelsea rúllaði yfir ensku Úrvalsdeildina tímabilið 2014/15 og lék John Terry alla 38 leikina og skoraði heil fimm mörk í leiðinni.

Terry var þetta tímabilið valinn í lið ársins og er einn elsti leikmaðurinn til að afreka slíkt. Chelsea lyfti einnig enska Deildarbikarnum þetta tímabilið og lék liðið á köflum frábæran fótbolta.

Óstöðugleikinn hefur hins vegar alltaf verið mesti óvinur Chelsea og við þekkjum öll söguna af tímabilinu sem fylgdi þar á eftir. Það var algert hrun sem enginn hefur getað útskýrt almennilega. Í annað sinn fékk Mourinho sparkið og í þetta skiptið var liðið nánast í fallbaráttu og það í desember. Aftur fékk Abramovich hinn geðþekka Guus Hiddink til að taka við en honum tókst varla betur upp, liðið endaði í 10. sæti þetta árið. Terry hefur lýst þessu tímabili sem hans versta á sínum ferli.

Þegar þarna var komið við sögu áttu flestir von á því að Terry myndi fara frá félaginu. Það snarbreyttist hins vegar þegar Antonio Conte var ráðinn til Chelsea. Hann lét forráðamenn Chelsea vita að hann vildi halda Terry og sú varð raunin. Til að byrja með var Terry fastamaður undir stjórn Conte en meiddist svo illa og var frá í tvo mánuði. Á þessum tíma fór Chelsea á 13 leikja sigurgöngu þar sem Cahill, David Luiz og Azpilicueta mynduðu hið fræga þriggja manna miðvarðateymi Conte. Þar sem Chelesa var ekki í neinni evrópukeppni voru leikirnir því fáir sem Terry fékk að spila.

Chelsea vann frækinn sigur í ensku Úrvalsdeildinni en öllum var ljóst að þetta var síðasta tímabil Terry með Chelsea. Tímapunkturinn var kominn. Chelsea gerði að sjálfsögðu mikið úr því að Terry væri að hætta hjá félaginu. Hann byrjaði næst síðasta heimaleik tímabilsins gegn Watford og skoraði í þeim leik, undirritaður var á vellinum þegar það gerðist og hafa líklega aldrei heyrst önnur eins fagnaðarlæti á Stamford Bridge.

Sjálfur kveðjurleikurinn var hins vegar lokaleikur tímabilsins gegn Sunderland. Þá byrjaði Terry leikinn og það var greinilegt að okkar menn vildu að hann skoraði því allt var reynt til að láta það gerast. En svo kom augnablikið - John Terry var skipt af velli á 26. mínútu. Terry hafði alltaf leikið í treyju nr. 26 og var þetta því táknrænt. Leikmenn stóðu heiðursvörð er hann gekk af velli og allir 42 þúsund áhorfendur á Stamford Bridge hylltu hetjuna sína í síðasta skipti. Eftir nítján tímabil sem atvinnumaður hjá Chelsea hafði John Terry þakkað fyrir sig og sagt bless.

Umdeildur
Í yfirferð sem þessari er verður líka að ræða þau umdeildu mál sem Terry gekk í gegnum á ferli sínum. Sum þeirra voru hneykslismál sem höfðu rétt á sér og önnur þeirra voru ósanngjörn. Erfiðustu málin sem Terry mátti þola voru klárlega þegar komst upp um ástarsamband hans og þáverandi kærustu Wayne Bridge - þetta var mikill skandall sem varð til þess að Bridge neitaði að taka í höndina á Terry þegar þeir mættust á vellinum.

Hitt málið er svo hið umdeilda mál hjá honum og Anton Ferdinand. Þar var Terry ásakaður um rasisma og vissulega lét Terry hafa eftir sér misgáfuleg ummæli í hita leiksins. Þessi mál fóru alla leið fyrir dómstóla þar sem Terry var í raun sýknaður en þetta mál kostaði hann þó fyrirliðastöðuna í enska landsliðinu og varð til þess að Fabio Capello sagði af sér sem landsliðsþjálfari því hann þoldi ekki afskiptin að hálfu enska knattspyrnusambandsins. Eftir árs hlé var Terry þó valinn aftur í landsliðið og spilaði í Evrópukeppninni 2012 - það var hans síðasta keppni fyrir enska landsliðið.

Þrátt fyrir þessi mál er Terry mikill mannvinur og það þekkja allir innan Chelsea. Það eru fáir, ef einhverjir fótboltamenn sem hafa sinnt jafn miklum góðgerðastörfum fyrir sinn klúbb og gefið eins mikið af sér eins og hann. Ein lítil saga er þegar Terry var ungur leikmaður og var á varamannabekknum í leik gegn Everton. Leikurinn var í janúar og var Terry var að hita upp þegar hann sér ungan dreng meðal áhorfenda sem er augljóslega kalt. Terry gaf þessum unga dreng úlpuna sína, vettlingana og húfuna - drengurinn var stuðningsmaður Everton en byrjaði að halda með Chelsea eftir þetta.

Annað lítið dæmi kom nýlega í ljós þegar maður, sem nú er rúmlega tvítugur, sagði frá því Twitter þegar hann átti að vera einskonar lukkutröll og leiða John Terry inn á völlinn í leik gegn FC Bayern. Þjóðverjarnir klikkuðu hins vegar á að koma með sitt eigið lukkutröll og bannaði því eftirlitsmaður UEFA að Chelsea myndi leyfa drengnum að fara inn á völlinn með tilheyrandi særindum hjá þessum unga stuðningsmanni. Terry varð fyrir tilviljun vitni að þessu öllu saman og reyndi að tala um fyrir eftirlistmanninum sem gaf sig ekki. Terry hlustaði ekki á þetta bull og bað öryggisvörð um að passa upp á strákinn og láta hann vera viðbúinn í göngunum fyrir leikinn þar sem Terry leiddi hann inn á völlinn og borgaði svo sjálfur einhverja sekt sem Chelsea fékk frá UEFA vegna uppátæksins. Terry leyfði síðan drengnum að koma inn í búningsklefann eftir leik að heilsa upp leikmenn liðsins.

Til eru fjölmargar svona sögur af John Terry, hann hefur vissulega gert sín mistök en ávallt komið sterkari til baka og alltaf gefið mikið af sér.

Lokaorð
Í heildina spilaði John Terry 717 leiki fyrir Chelsea og skoraði í þeim 67 mörk. Af þessum leikjum voru 492 leikir í ensku Úrvalsdeildinni og er hann markahæsti varnarmaður deildarinnar frá upphafi með 41 mark. Sem leikmaður vann Terry nánast alla bikara sem í boði voru. Hann vann fimm sinnum ensku Úrvalsdeildina, varð fimm sinnum FA Cup bikarmeistari, þrivar sinnum lyfti hann enska Deildarbikarnum og sigraði bæði Evrópudeildina og Meistaradeildina. Alls eru þetta fimmtán bikarar á nítján tímabilum, auka annara smærri tila eins og Samfélagsskjöldinn og annað slíkt.

Það segir sína sögu að aðilar eins og Jamie Carragher hafi kallað John Terry besta varnarmann í sögu ensku Úrvalsdeildarinnar. Ég vil þó ganga lengra og segja að Terry sé einn besti varnarmaður í sögu knattspyrnunnar. Á síðasta tímabili spilaði Terry með Aston Villa í hinni krefjandi Championship deild. Terry var hársbreidd frá því að fara með Villa aftur upp í Úrvalsdeildina en þeir töpuðu naumlega úrslitaleiknum um síðasta lausa sætið í deildinni. Terry var þetta árið valinn í lið ársins í Championship deildinni, 38 ára gamall.

Terry ætlar sér að fara út í þjálfun og er nú þegar orðinn aðstoðarþjálfari Aston Villa. Það er mín von og trú að Terry muni koma aftur á Stamford Bridge sem knattspyrnustjóri og loka þannig hringnum með Chelsea.

Takk fyrir allar góðu stundirnar JT.
Þú ert svo sannarlega Captain, Leader, Legend



Greinin birtist fyrst á cfc.is
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner