
Paul Robinson fyrrum landsliðsmarkvörður Englands ólst upp hjá Leeds og lék með aðalliði félagsins frá 1998-2004.
Dominik Livakovic hefur vakið athygli fyrir frammistöðu sína í rammanum hjá króatíska landsliðinu á HM en Robinson vill ekki að Leeds næli í leikmanninn sem spilar með Dinamo Zagreb í heimalandinu.
„Ég hef ekki séð nóg af honum og ég myndi ekki kaupa hann miðað við eitt stórmót. Ég myndi klárlega ekki vilja sjá Meslier fara, það myndi ekki gerast í janúar, ef Meslier verður að fara yrði það græjað í sumar," sagði Robinson.
„Það er áhætta að ná í leikmann eftir stórmót. Livakovic hefur staðið sig vel á HM, verið sterkur í að verja víti. En ég hef ekki séð nóg af honum í deildarkeppni til að segja að þetta sé þess virði fyrir Leeds."
Livakovic hefur meðal annars verið orðaður við Bayern Munchen þar sem Manuel Neuer er frá vegna fótbrots.