Ipswich Town hefur staðfest kaupin á enska leikmanninum Jaden Philogene en hann kemur til félagsins frá Aston Villa.
Philogene er 22 ára gamall vængmaður sem hefur komið við sögu í ellefu deildarleikjum með Aston Villa á tímabilinu.
Hann náði ekki að festa sæti sitt í byrjunarliðinu og ákvað því að róa á önnur mið en Ipswich Town náði á dögunum samkomulagi við Villa um kaup á leikmanninum.
Félagaskiptin voru staðfest í gær en Ipswich greiðir um 20 milljónir punda og skrifaði Philogene undir fjögurra og hálfs árs samning við félagið.
„Ég er spenntur að vera mættur hingað og ég veit að það eru margir frábærir leikmenn í þessu liði. Ég vil spila eins mikið og ég mögulega get. Sem leikmaður er ég hrifinn af því að rekja boltann, ná góðu samspili og skapa mörk og stoðsendingar. Ég hlakka mikið til að gera það hér,“ sagði Philogene við heimasíðu félagsins.
Athugasemdir