Meira en 1000 stuðningsmenn Tottenham mótmæltu eignarhaldi félagsins og forseta þess í mótmælagöngu fyrir heimaleik gegn Manchester United í dag.
Stuðningsmenn hrópuðu 'Levy out' og 'Enic out', en Daniel Levy er forseti Tottenham á meðan ENIC Group er eigendahópur félagsins.
Stuðningsmenn eru ósáttir með eigendur eftir að þeir keyptu ekki inn nýja leikmenn í janúarglugganum þrátt fyrir ótrúleg meiðslavandræði í leikmannahópi Tottenham.
Tottenham vann leikinn 1-0 gegn Rauðu djöflunum og mótmæltu stuðningsmenn einnig eftir lokaflautið með því að yfirgefa ekki leikvanginn fyrr en talsvert síðar.
Stuðningsmennirnir útbjuggu ýmsa borða í mótmælaskyni og sagði einn af þeim stærstu: „24 ár, 16 þjálfarar, 1 bikar."
Stuðningsmannahópurinn 'Change for Tottenham' skipulagði mótmælin. Talsmaður hópsins segir að Tottenham geti ekki haldið áfram í sama farvegi og áður. Nú séu eigendur þess búnir að græða fjórfalt það sem þeir lögðu í félagið og telja stuðningsmenn vera kominn tíma fyrir breytingar.
Tottenham er óvænt í neðri hluta ensku úrvalsdeildarinnar, með 30 stig eftir 25 umferðir.
Eini titill sem Tottenham hefur unnið undir eignarhaldi ENIC Group er deildabikarinn 2008. ENIC keypti félagið af Sir Alan Sugar skömmu eftir aldamót.
Athugasemdir