Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 16. mars 2021 16:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Auðvelt fyrir Loga að stíga inn - Matthías færir liðinu mikinn styrk
Logi Ólafsson, þjálfari FH.
Logi Ólafsson, þjálfari FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við erum bjartsýnir á að við getum staðið okkur vel í sumar'
'Við erum bjartsýnir á að við getum staðið okkur vel í sumar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Úrslit leikja hafa ekki verið okkur sérstaklega hliðholl, við hefðum kosið að fara lengra í Lengjubikarnum en æfingar hafa gengið vel," segir Logi Ólafsson, þjálfari FH, í samtali við Fótbolta.net.

Logi þjálfaði FH með Eiði Smára Guðjohnsen á síðustu leiktíð en eftir að tímabilinu lauk var Eiður Smári ráðinn einn sem aðalþjálfari og Logi sem tæknilegur ráðgjafi. Logi þurfti að taka þjálfaramöppuna fljótt fram aftur þegar Eiður var ráðinn aðstoðarþjálfari landsliðsins. Davíð Þór Viðarsson verður aðstoðarmaður Loga sem segir að það hafi verið auðvelt að stíga inn.

„Það var einfalt, ég var þarna hvort sem var í aðeins öðru hlutverki. Við vorum með liðið saman í fyrra og þetta var einfalt mál fyrir mig," segir Logi.

Staðan á leikmannahópnum
Það hafa verið meiðsli að hrjá nokkra leikmenn FH á undirbúningstímabilinu og þar á meðal miðjumanninn mikilvæga, Eggert Gunnþór Jónsson.

„Menn eru að koma til baka eftir að hafa verið eitthvað meiddir. Björn Daníel (Sverrisson) hefur lítið spilað með okkur og hann er að koma til baka. Eggert Gunnþór braut bátsbein í hendi. Hann spilaði 30 mínútur á móti KR á dögunum en hefur nánast ekkert verið með í Lengjubikarnum. Síðan hafa þetta verið smá meiðsli sem menn eru tiltölulega fljótir að jafna sig á. Sá sem er meiddur núna er Oliver Heiðarsson sem við fengum frá Þrótti, allir aðrir eru með á æfingum," segir Logi.

Hann býst við því að Eggert, sem kom heim úr atvinnumennsku í fyrra, verði orðinn alveg klár í slaginn á næstunni.

Nýir leikmenn
FH hefur styrkt leikmannahóp sinn vel. Þeir fengu Matthías Vilhjálmsson heim frá Noregi og hafa þrír efnilegir leikmenn komið til félagsins; Oliver frá Þrótti, Teitur Magnússon frá OB í Danmörku og Vuk Oskar Dimitrijevic frá Leikni Reykjavík.

„Þessir leikmenn hafa verið að koma virkilega vel inn. Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Matthías með alla þá reynslu sem hann hefur. Hann færir liðinu mikinn styrk innan sem utan vallar," segir Logi og bætir við að ungu strákarnir séu efnilegir og lofandi.

Það gætu fleiri leikmenn lent í FH en ekkert sem hægt er að tala um akkúrat núna.

„Það er ekki neitt sem hægt er að tala um. Við erum opnir og vakandi fyrir því sem býðst. Það er ekkert í augnablikinu sem er hægt að tala um," sagði Logi en hann gæti hugsað sér að bæta varnarmanni við hópinn.

„Bakvörður er eitthvað sem við gætum þegið, í sjálfu sér breytir það ekki miklu hvoru megin það er. Við erum með Hjört Loga sem er örvfættur og Hörð Inga. Pétur Viðarsson getur líka leikið þarna og við erum með unga stráka úr 2. flokki, Jóhann Ægi Arnarsson, Loga Hrafn Róbertsson og fleiri sem geta tekið að sér hlutverk í varnarleik liðsins. Það skiptir ekki öllu máli hvoru megin það er."

Ætlum að vera í góðu formi
Eins og Logi kom inn á, þá eru úrslitin á undirbúningstímabilinu ekki búin að vera frábær en hann er bjartsýnn á góðan árangur þegar í alvöruna er komið.

„Við ætlum okkur að vera í góði formi þegar leiktíðin byrjar og erum að vinna hörðum höndum að því. Við erum bjartsýnir á að við getum staðið okkur vel í sumar," sagði Logi en FH hafnaði í öðru sæti Pepsi Max-deildarinnar í fyrra.
Athugasemdir
banner
banner
banner