Bayern vill Bernardo Silva - Skotlmark Man Utd og Liverpool vill fara til Real - Ensk félög horfa til Kimmich
   sun 16. júní 2024 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
MLS: Dagur og Nökkvi töpuðu - Níu leikmenn Inter gerðu sigurmark
Mynd: Orlando City
Mynd: Getty Images
Mynd: St. Louis City
Mynd: Getty Images
Bandaríska MLS deildin er í fullu fjöri þessa dagana þó að Copa América keppnin eftirvænta nálgist óðfluga.

Dagur Dan Þórhallsson var í byrjunarliði Orlando City sem tapaði heimaleik gegn Los Angeles FC.

Orlando sýndi fína frammistöðu en átti í gríðarlegum vandræðum með að nýta færin sín. Facundo Torres klúðraði vítaspyrnu í fyrri hálfleik og þá gengu marktilraunir Luis Muriel ekki heldur upp.

Muriel lagði þó jöfnunarmark leiksins upp á 69. mínútu, en Los Angeles vann viðureignina með tveimur mörkum á lokakaflanum þar sem Denis Bouanga var allt í öllu.

Þessi fyrrum framherji Saint-Étienne í Frakklandi skoraði og lagði upp á lokakaflanum, en hann gerði einnig fyrsta mark leiksins og átti því tvö mörk og eina stoðsendingu í 1-3 sigri.

Orlando er aðeins komið með 17 stig úr 17 umferðum, en liðið hefur ekki krækt sér í nema eitt stig úr síðustu fjórum leikjum.

Gengið hjá St. Louis City hefur einnig verið slæmt og er liðið með 18 stig úr 17 umferðum eftir tap í nótt.

Nökkvi Þeyr Þórisson byrjaði á bekknum en var skipt inn á 20. mínútu vegna meiðsla liðsfélaga hans. Nökkva tókst þó ekki að hafa nægilega mikil áhrif á leikinn til að koma í veg fyrir 2-0 tap á útivelli gegn FC Dallas.

St. Louis var sterkara liðið í nótt en nýtti ekki færin sín.

Að lokum vann Inter Miami frábæran sigur á útivelli gegn Philadelphia Union til að auka forystuna á toppi austurhluta MLS deildarinnar.

Lionel Messi og Luis Suárez voru ekki í leikmannahópnum en spænsku kempurnar Sergio Busquets og Jordi Alba voru á sínum stað í byrjunarliðinu.

Heimamenn í Philadelphia tóku forystuna snemma leiks og leiddu í leikhlé, en Inter tókst að jafna í upphafi síðari hálfleiks.

Inter missti svo tvo leikmenn útaf með rauð spjöld, þá tvítugu Tomas Aviles og David Ruiz, og kláraði leikinn því tveimur leikmönnum færri.

Seinna rauða spjaldið kom á 84. mínútu í stöðunni 1-1 og gerði Gerardo Martino, þjálfari Inter, þrjár skiptingar á lokakaflanum.

Leonardo Afonso var meðal annars skipt inn af bekknum og tókst honum að skora ólíklegt sigurmark fyrir níu leikmenn Inter skömmu síðar, eftir undirbúning frá Yannick Bright.

Ótrúlega dramatískt sigurmark hjá Inter, sem er með 38 stig eftir 19 umferðir. Liðið er fimm stigum fyrir ofan FC Cincinnati sem situr í öðru sæti en á þrjá leiki til góða.

Orlando City 1 - 3 Los Angeles FC

Philadelphia Union 1 - 2 Inter Miami

FC Dallas 2 - 0 St. Louis City

Athugasemdir
banner
banner