Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
banner
   þri 17. janúar 2023 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hildigunnur: Fannst ég hafa gott af breytingu eftir frekar glatað tímabil
Auðvitað erfið ákvörðun að fara frá uppeldisfélaginu en það var samt svona eiginlega það eina í stöðunni
Auðvitað erfið ákvörðun að fara frá uppeldisfélaginu en það var samt svona eiginlega það eina í stöðunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég upplifði mig kannski ekki beint alltaf sem þátttakanda í velgengninni
Ég upplifði mig kannski ekki beint alltaf sem þátttakanda í velgengninni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skoraði sex mörk á sínu fyrsta tímabili í efstu deild.
Skoraði sex mörk á sínu fyrsta tímabili í efstu deild.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þetta er mjög spennandi lið og ég er mjög jákvæð fyrir þessu
Þetta er mjög spennandi lið og ég er mjög jákvæð fyrir þessu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir samdi við FH í síðasta mánuði eftir að hafa rift samningi sínum við uppeldisfélagið Stjörnuna eftir síðasta tímabil. Hildigunnur skrifar undir samning út tímabilið 2024.

Hún er nítján ára sóknarmaður sem var ekki í stóru hlutverki í fyrra þegar Stjarnan endaði í 2. sæti Bestu deildarinnar, hún kom við sögu í þrettán leikjum en náði ekki að skora.

Hjá Stjörnunni lék hún alls 52 leiki í efstu deild og skoraði 14 mörk, fyrstu leikirnir komu árið 2019 og skoraði hún sex mörk í tíu deildarleikjum það tímabilið. Hildigunnur ræddi við Fótbolta.net og var spurð út í ákvörðunina að rifta samningi sínum við uppeldisfélagið og semja við FH.

„Það var auðvitað erfið ákvörðun að fara frá uppeldisfélaginu en það var samt svona eiginlega það eina í stöðunni. Ég hefði alveg getað verið áfram í Stjörnunni og unnið mig inn í liðið en mér fannst ég hafa gott af breytingu eftir frekar glatað tímabil," sagði Hildigunnur.

Alls ekki erfitt að samgleðjast með stelpunum
Hún byrjaði einungis þrjá deildarleiki á síðasta tímabili og kom tíu sinnum inn á. Hún missti út fimm leiki vegna meiðsla sem hún varð fyrir í leik gegn Aftureldingu í maí og náði ekki að komast í byrjunarliðið eftir það. Kom það henni á óvart hversu takmarkað hún fékk að spila?

„Bara bæði og. Ég hafði verið aðeins meidd á undirbúningstímabilinu en átti samt sem áður von á meiri spilatíma og trausti eftir gott tímabil árið áður."

Hvernig er að vera í takmörkuðu hlutverki í liði sem gengur mjög vel? Var erfitt að samgleðjast eða vera hluti af stemningunni?

„Það var alveg stundum erfitt að brosa mikið eftir leiki sem ég spilaði miklu minna í en ég vildi gera og ég upplifði mig kannski ekki beint alltaf sem þátttakanda í velgengninni. En það var góður andi í leikmannahópnum og það var alls ekki erfitt að samgleðjast með stelpunum þar sem þetta voru allt orðnar góðar vinkonur mínar og þær stóðu sig mjög vel."

Lokaði á önnur lið eftir nokkrar æfingar hjá FH
Að FH, hversu langur tími líður frá því þú riftir og þangað til að FH hefur fyrst samband?

„Ég rifti við Stjörnuna eftir síðasta leik tímabilsins og þá eru öll lið í fríi. Ég heyrði frá FH stuttu eftir að þau byrjuðu að æfa aftur og prófaði nokkrar æfingar hjá þeim."

FH vann Lengjudeildina í sumar og verður í Bestu deildinni á komandi tímabili. Varstu strax spennt þegar FH kom upp?

„Ég hafði talað við önnur lið en lokaði á það eftir nokkrar æfingar og fundi með FH. Þetta er mjög spennandi lið og ég er mjög jákvæð fyrir þessu."

Var einhver sem hjálpaði þér við að taka þessa ákvörðun?

„Bara fólkið í kringum mig og svo er ég með Gylfa hjá Total Football sem umboðsmann sem ég gat alltaf leitað til."

Hvernig er hugsunin núna að fara mæta Stjörnunni á næsta tímabili? Helduru að það verði skrítið?

„Það verður kannski smá skrítið en samt bara gaman."

Var ekkert að stefna út á þeim tíma
Var einhver áhugi að utan, eitthvað haldið sambandi eftir æfingarnar hjá dönsku meisturunum í HB Köge síðasta vetur?

„Nei ekkert sem ég heyrði af, enda kannski ekki spennandi að sækja ungan leikmann sem fær lítið að spila með sínu félagsliði í íslensku deildinni."

Hvernig kom það til að þú varst á blaði hjá HB Köge?

„Ég held þeir hafi bara séð fína tölfræði og heyrt í mér, þeir sendu mér allavega bara skilaboð. Ég átti ennþá eftir að klára menntaskóla og var ekkert að stefna að fara út á þessum tíma, langaði bara að prófa og sjá hvernig þetta væri."

Hvernig voru samskiptin eftir æfingarnar?

„Ég talaði bara við þjálfarana eftir æfingarnar og fékk gott „feedback" en veit ekki hvort þeir fylgdust eitthvað meira með mér," sagði Hildigunnur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner