„Ég met þetta sem ágætis byrjun á þessu undirbúningstímabili. Þetta byrjar svolítið núna þegar Lengjubikarinn fer af stað og við fáum gott lið eins og FH í heimsókn," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks eftir sigur liðsins á FH í Lengjubikarnum.
„Undirbúningsmót er undirbúningsmót og það er bara febrúar en það skiptir máli hvernig þessir leikir fara og það skiptir máli að fara langt í Lengjubikarnum upp á taktinn og undirbúninginn fyrir Bestu deildina," sagði Óskar Hrafn.
„Við erum á mjög ólíkum stað. Menn voru mögulega að koma úr viku fríi á sama tíma í fyrra eftir að hafa verið á Atlantic Cup þannig við erum á allt öðrum stað, mér finnst við vera á betri stað, það er betri taktur. Menn eru að koma úr meiðslum, að er búið að vera svolítið um meiðsli, sem auðvitað bara fylgir."
Óskar er ánægður með stöðuna á hópnum.
„Við erum á öðrum stað, það er erfitt að segja til um það á hversu góðum stað maður er. Það kemur í raun ekki í ljós fyrr en við komum inn í alvöruna, mér líður eins og staðan á hópnum sé góð. Við erum búnir að keyra þetta bratt. Við förum að breyta taktinum, minnka hlaup og lyftingar. Við höfum verið á leiðinni upp fjallið og erum að fara niður núna og það er bara spurning hvernig við verðum þegar við komum á jafnsléttu."