sun 17. júlí 2022 17:30
Brynjar Ingi Erluson
Ajax búið að finna arftaka Martínez
Calvin Bassey í leik með Rangers
Calvin Bassey í leik með Rangers
Mynd: EPA
Enski varnarmaðurinn Calvin Bassey er mættur til Hollands til að ganga frá félagaskiptum sínum til Ajax frá Rangers, en hann kemur í stað Lisandro Martínez sem er að ganga í raðir Manchester United.

Man Utd og Ajax komust að samkomulagi um kaup og sölu á Martínez fyrr í dag og á leikmaðurinn aðeins eftir að gangast undir læknisskoðun áður en hann skrifar undir langtímasamning við enska félagið.

Ajax var ekki lengi að finna arftaka hans en félagið hefur náð samkomulagi við skoska félagið Rangers um kaup á hinum 22 ára gamla Calvin Bassey.

Hollenska félagið mun greiða 23 milljónir punda fyrir Bassey sem mun skrifa undir fjögurra ára samning með möguleika á að framlengja um annað ár. Bassey er staddur í Amsterdam og mun ganga frá helstu smáatriðum í dag.

Bassey getur spilað bæði sem vinstri bakvörður og miðvörður, en hann mun væntanlega gegna hlutverki miðvarðar í ljósi þess að Ajax festi kaup á hollenska vinstri bakverðinum Owen Wijndal frá AZ Alkmaar á dögunum.
Athugasemdir
banner
banner