sun 17. september 2023 21:48
Brynjar Ingi Erluson
Styttist í endurkomu Gylfa - „Vonandi verður hann með á föstudag“
watermark Gylfi Þór er að verða klár í slaginn
Gylfi Þór er að verða klár í slaginn
Mynd: Lyngby
Það styttist óðum í að Gylfi Þór Sigurðsson snúi aftur á völlinn en Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby, vonast til að hann verði með næsta föstudag.

Gylfi samdi við Lyngby á dögunum en hann hefur verið að koma sér aftur í form, eftir að hafa ekki spilað fótbolta í tvö ár.

Hann var ekki í leikmannahópi Lyngby í 1-0 sigrinum á Hvidovre í dag er Andri Lucas Guðjohnsen gerði sigurmark liðsins í bestu byrjun Lyngby í úrvalsdeildinni í 20 ár.

Eftir leikinn sagði Freyr að það væri stutt í endurkomu Gylfa á völlinn.

„Ég vona að hann geti verið í hópnum á föstudag. Við vonum það svo innilega, en í síðasta lagi verður það vikuna á eftir. Þannig ég segi kannski á að hann verði með á föstudag.“

„Við viljum vera vissir um að við komum honum ekki of hratt inn í þetta, þannig það verði ekki skemmdir á þessum litlu vöðvum, sem eru jú mikilvægir. Við erum að vinna í því að örva þá núna, en þetta gengur mjög vel og vonandi verður hann hér á föstudag,“
sagði Freyr við Discovery+.

Lyngby mætir Vejle á föstudag en spilað er á heimavelli Lyngby. Ef hann verður ekki með í þeim leik er nánast öruggt að hann spili gegn HB Koge í danska bikarnum þann 26. september næstkomandi.
Athugasemdir
banner
banner