þri 17. nóvember 2020 11:13
Magnús Már Einarsson
Kári: Þjálfararnir hafa verið dæmdir ósanngjarnt
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason, varnarmaður íslenska landsliðsins, telur að Erik Hamren landsliðsþjálfari hafi fengið ósanngjarna gagnrýni í stjóratíð sinni. Erik stýrir sínum síðasta leik á morgun þegar Ísland mætir Englandi á Wembley en Svíinn tók við liðinu fyrir rúmum tveimur árum.

„Ég held að það séu allir leikmenn liðsins sammála um að hann hafi unnið mjög gott starf. Hann og Freyr (Alexandersson, aðstoðarþjálfari) hafa verið dæmdir ósanngjarnt fyrir árangur," sagði Kári á fréttamannafundi í dag.

„Við náðum góðum árangri í riðlinum fyrir EM. Við náðum í 19 stig sem hefði átt að duga ef að Frakkar hefðu unnið Tyrki eins og allir bjuggust við. Tyrkir gerðu sitt mjög vel og náðu í fleiri stig."

„Það er ætlast til að við förum á öll mót en stundum dettur þetta ekki fyrir mann. Við áttum off leik gegn Albaníu og þó við hefðum unnið hann þá hefðum við ekki komist."

„Við erum að spila í A-deild og þetta er rosalega erfið deild. Það er ekki ætlast til þess að við klárum Belgíu, Danmörku og England í hverjum leik og það hefur verið mikið um meiðsli. Mér finnst gagnrýnin sem hefur komið á þessa þjálfara verið mjög óréttlát. Frammistaðan hefur verið góð þegar skptir máli, þessi riðill var mjög góður. Þetta var góð stigasöfnun en þetta féll ekki alveg fyrir okkur."

„Síðan var þetta fíaskó í Ungverjalandi að fá á sig tvö mörk á síðustu þremur mínútunum. Ég hef ekkert nema jákvætt að segja um þá og ég held að flestir séu á sama máli ef ég tala aðeins fyrir hópinn."

Athugasemdir
banner
banner