Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 18. janúar 2022 11:31
Elvar Geir Magnússon
Þýskur dómari fékk líflátshótanir eftir viðtalið við Bellingham
Bellingham skaut fast á Felix Zwayer.
Bellingham skaut fast á Felix Zwayer.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Þýski dómarinn Felix Zwayer segist hafa fengið líflátshótanir á internetinu eftir að Jude Bellingham, leikmaður Borussia Dortmund, benti á tengsl hans við veðmálaskandal.

Bellingham dró ekkert undan í viðtali eftir 3-2 tap Dortmund gegn Bayern München í desember. Heimamenn voru bálreiðir eftir að Bayern fékk vítaspyrnu seint í leiknum en dæmd var hendi á Mats Hummels.

Marco Rose, stjóri Dortmund, fékk svo rautt spjald fyrir mótmæli. Robert Lewandowski tók spyrnuna fyrir Bæjara og skoraði mikilvægt sigurmark.

Í viðtali eftir leikinn vitnaði Bellingham í tengsl Zwayer við hagræðingu úrslita í þýska boltanum 2005.

„Þú getur horft á margar ákvarðanir í þessum leik en við hverju býstu þegar þú gefur dómara, sem hefur hagrætt úrslitum áður, stærsta leikinn í Þýskalandi," sagði Bellingham í viðtali við Viaplay.

Zwayer var dæmdur í bann frá dómgæslu í sex mánuði fyrir sautján árum, þrátt fyrir að ekki hafi verið sannað að hann átti hlut í máli. Dómarinn Robert Hoyzer tók við mútugreiðslum fyrir að hagræða úrslitum en Zwayer starfaði þá sem aðstoðardómari. Hoyzer tók við mútum í tengslum við marga leiki en sagt er að Zwayer hafi fengið 300 evrur fyrir að dæma Wuppertaler SV í hag.

Zwayer og þrír aðrir dómarar tilkynntu svo síðar um brot Hoyzer til þýska fótboltasambandsins. Zwayer náði að endurreisa sinn dómaraferil og varð alþjóðlegur dómari hjá FIFA og UEFA.

Bellingham fékk sex milljóna króna sekt eftir viðtalið en Zwayer, sem heldur fram sakleysi sínu varðandi hagræðingu úrslita, segist hafa orðið fyrir alvarlegu áreiti eftir viðtalið við enska landsliðsmanninn.

„Fjölmörg skilaboð hafa verið send á tölvupóstfangið mitt, það eru skilaboð sem er erfitt að sætta sig við. Lögreglan í Berlín lét mig vita að það væru líflátshótanir í minn garð á internetinu. Þetta er eitthvað sem ég gat ekki leynt fyrir eiginkonu minni," segir Zwayer

„Þremur dögum eftir leikinn var ég á leið í alþjóðlegt verkefni en þegar ég kvaddi eiginkonu mína brast hún í grát. Ekki vegna þess að hún saknar mín þegar ég er fjarverandi heldur vegna þess að hún hefur áhyggjur af mér og veit kannski ekki hvað mun gerast heima. Þetta er staða sem er hreinlega mjög erfitt að vera í."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner