Spænska félagið Real Madrid er að undirbúa nýtt og endurbætt tilboð í enska hægri bakvörðinn Trent Alexander-Arnold en þetta segir Jose Felix Diaz, blaðamaður hjá Marca í dag.
Alexander Arnold, sem er 26 ára gamall, verður samningslaus eftir tímabilið.
Liverpool hefur átt í viðræðum við hann um nýjan samning en aðilarnir hafa ekki náð samkomulagi. Real Madrid er komið í baráttuna og hefur Marca haldið því fram að það sé nánast öruggt að hann fari til Spánar.
Madrídingar eru hins vegar örvæntingafullir. Mikil meiðslavandræði hafa verið á varnarmönnum liðsins og vill félagið fá Trent inn sem allra fyrst.
Real Madrid hafði samband við Liverpool fyrr í þessum mánuði og var sagt tilbúið að greiða 20 milljónir punda til að landa honum, en Liverpool hafnaði tilraun félagsins.
Jose Felix Diaz segir nú að Real Madrid sé að undirbúa nýtt tilboð í leikmanninn. Talið er að spænska félagið sé reiðubúið að greiða allt að 33 milljónir punda fyrir Trent.
Ekki eru miklar líkur á að Liverpool skoði það tilboð frekar en önnur en liðið er titilbarátta á Englandi og í efsta sæti í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið er einnig í undanúrslitum deildabikarsins og komið í 4. umferð enska bikarsins og kemur því ekki til greina að láta lykilmann fara á þessum tímapunkti.
Athugasemdir