Árni Freyr Sverrisson skrifar:
Í ljósi umræðunnar um samningsmál á Íslandi og kröfu skattayfirvalda að leikmenn skuli gerðir að launþegum, þeim mótmælum sem hafa komið upp og að leikmenn eigi ekki að vera launþegar langar mig að skrifa mitt álit á þessu máli.
Fyrir það fyrsta að halda því fram að það sé ekki hægt að selja launþega er einfaldlega rangt.
Fyrir það fyrsta að halda því fram að það sé ekki hægt að selja launþega er einfaldlega rangt.
Leikmenn á Englandi, Ítalíu, Spáni etc. en til að líta okkur nær og horfa til Noregs eru allir leikmenn launþegar. Það er auðvitað ákveðið ferli að selja leikmann, það þarf að koma tiboð frá “nýju” félagi í leikmann sem núverandi félag þarf að samþykkja. Komist félögin að samkomulagi um kaupverð er samningi leikmanns við núverandi félag rift og leikmaðurinn gerir samning við nýja félagið. Sé um erlendan leikmann að ræða sem tilheyrir öðru knattspyrnusambandi flækist ferlið örlítið en þá þurfa félögin að fara í gegnum FIFA TMS (Transfer matching system) þar sem bæði félög þurfa að skila inn gögnum til sinna knattspyrnusambanda, þau sambönd þurfa svo að samþykkja að allar upplýsingar eru réttar. Sé allt eins og það eigi að vera er gefið út ITC (International Transfer Certificate), sé um kaupverð að ræða þarf nýja félagið að senda inn sönnun á greiðslu í TMS. Félagaskipti milli félaga í mismunandi löndum er því aðeins flóknara en eins og áður kemur fram, þá eru leikmenn í nánast öllum löndum Evrópu launþegar en samt sem áður gengur þetta virkilega smurt fyrir sig.
Ef umhverfið í Evrópu er skoðað þá er nánast einungis Tékkland með leikmenn sína sem verktaka. Það hvort leikmaður sé launþegi eða verktaki er í grunnin lögfræðileg spurning, hvaða skyldur hefur leikmaður gagnvart félaginu sínu og hvaða skyldur hafa félögin gagnvart leikmönnum sínum.
Ef staðalsamningur KSÍ er skoðaður gefur það augaleið að um ráðningarsamning launþega er að ræða en ekki verktakasamning. Það eru ýmis atriði sem hægt er að kíkja á til staðfestingar á þessu, þar á meðal hvaða skyldur leikmaður hefur til félagsins en einnig þær skyldur sem félag hefur til leikmanns. Í grein 1. a er meðal annars ákvæði að leikmaður skuli taka þátt í sameiginlegum verkefnum leikmanna félagsins. Í grein 1. f er ákvæði sem bannar leikmanni að gera sjálfstæðann auglýsingasamning án samráðs við stjórn félags, 1. i segir að leikmaður megi ekki án leyfis stjórnar hefja samræður við annað íslenskt félag fyrr en 6 mánuðir eru eftir samningnum þetta ákvæði er í beinum tengslum við gr. 18.3 í FIFA RSTP, þó er í samningi KSÍ að sé félagið erlent skulu samningsviðræður fara fram í samráð við stjórn félagsins.
Félagið skuldbindur sig þá til að sjá leikmönnum frítt fyrir bestri mögulegri aðstöðu til æfinga og keppni skv. gr. 2. a, meiðist leikmaður á æfingu eða í leik á þeirra vegum eða vegum KSÍ skal félagið vísa leikmanninum 2l læknis eða sjúkraþjálfara á kostnað félagsins skv. gr. 2. c, lokadæmið sem tekið verður úr samningi KSÍ er gr. 2. f, Félagið skal ganga frá tryggingu fyrir leikmanninn, sem nær yfir slys og meiðsli við æfingar, keppni, ferðir og starf í tengslum við félagið og KSÍ, sem tryggir leikmanninum slysadagpeninga, örorkubætur og e.t.v. dánarbætur samkvæmt eftirfarandi: (fram verða að koma helstu ákvæði og númer tryggingaskírteinis). Samkvæmt þessu er leikmaður launþegi.
FIFPro (Alþjóðlegu leikmannasamtökin) og fleiri leikmannasamtök eru að berjast fyrir stöðu leikmanna til að byggja upp samninga og framfylgja vinnulöggjöf til að vernda leikmenn og stöðu þeirra sem launþega og ekki að ástæðulausu. Leikmenn þurfa öryggi í sínu starfi en skv. gr. 2.2 í FIFA RSTP (Regulations on the Status and Transfer of Players) er skýrt tekið fram að “Atvinnumaður er leikmaður sem er með skriflegan samning við félag og fær meira greitt fyrir knattspyrnuiðkun sína en útgjöldin sem hann verður fyrir í raun og veru. Allir aðrir leikmenn eru taldir vera áhugamenn”. Þegar horft er í launatölur leikmanna í Bestu deild karla sérstaklega er augljóst að um atvinnumenn er að ræða skv. skilgreiningu FIFA en KSÍ sem aðili að bæði UEFA og FIFA þarf að fylgja þeirra reglugerðum. Leikmenn eru því augljóslega starfsmenn félaganna.
Íslenskur fótbolti er að reyna að lyfta sér upp á hærra plan og gera umhverfið meira “professional” en því fylgja meðal annars fjárhagslegar skuldbindingar. Áhyggjur félaganna eru að mörgu leyti skiljanlegar en eins og kemur fram hér að ofan, þá eru þetta skuldbindingar sem félögin eiga nú þegar að vera að standa við skv. KSÍ samning. Það þarf ekki að horfa lengra til baka en á Morten Beck málið þar sem var um augljósan launþegasamning að ræða.
Álit höfundar er að það er löngu kominn tími á breytingar á umhverfinu á Íslandi.
Árni Freyr Sverrisson L.L.M International Sports Law
Athugasemdir