Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fim 18. mars 2021 07:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Cecilía Rán til Everton - Lánuð til Örebro (Staðfest)
Berglind og Cecilía ánægðar
Berglind og Cecilía ánægðar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mosfellingurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir er komin með leikheimild í Svíþjóð, það sést á vef knattspyrnusambandsins. Félagaskiptin höfðu verið í smá bið meðan beðið var eftir græna ljósinu frá FIFA.

Cecilía er sautján ára markvörður sem slegið hefur í gegn milli stanga Fylkis í Pepsi Max-deild kvenna undanfarin ár. Hún hefur mikið verið orðuð við Everton í vetur og voru sögur um að hún færi þaðan á láni til Örebro og myndi spila í Svíþjóð út tímabilið 2021. Cecilía var með lausan samning eftir síðasta tímabil og þurfti hennar næsta félag því ekki að greiða kaupverð fyrir hana.

Sögurnar með Everton voru sannar en það herma öruggar heimildir Fótbolta.net. Félagaskiptin til Englands eru ekki opinberlega gengin í gegn þar sem Cecilía er ekki orðin átján ára. Enska félagið krækir í Cecilíu og „lánar" til Örebro út leiktíðina.

Hún leikur því í Damallsvenskan í sumar, deildin hefst í apríl. Fyrsti leikur Cecilíu gæti verið gegn Sundsvall í sænska bikarnum á sunnudag.

Cecilía lék á síðasta ári sinn fyrsta A-landsleik og varði mark Fylkis sem endaði í þriðja sæti deildarinnar.

Hjá Örebro hittir Cecilía fyrir sinn fyrrum samherja, Berglindi Rós Ágústsdóttur, sem gekk í raðir félagsins fyrir áramót. Berglind var fyrirliði Fylkis áður en hún fór til Örebro.

Tove Enblom hefur varið mark Örebro í undanförnum æfingaleikjum en hún kom til félagsins frá Umeå í vetur.

Markverðir Everton eru þær Sandy McIver, sem er ensk landsliðskona, og Tinja-Riikka Korpela er finnskur landsliðsmarkvörður. Korpela varði mark Everton gegn Chelsea í gær.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner