Blaðamaðurinn Duncan Castles hjá FootballTransfers fullyrðir að fótboltasamband Sádi-Arabíu hafi sett sig í samband við umboðsmann ítalska þjálfarans Carlo Ancelotti.
Ancelotti og lærisveinar hans í Real Madrid eru úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir óvænt tap gegn Arsenal.
Real Madrid, sigursælasta lið keppninnar, verður ekki með í undanúrslitum og er það nógu stór ástæða til að láta hann fara í sumar.
Talið er að Xabi Alonso gæti tekið við Madrídingum strax í sumar, en hvað mun Ancelotti gera?
Brasilíska fótboltasambandið hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að fá Ancelotti til að stýra liðinu á HM á næsta ári, en það verður hörð samkeppni um hann.
Castles segir að sambandið í Sádi-Arabíu hafi þegar sett sig í samband við Ancelotti. Hugmyndin er að fá hann til að byggja sterkari grunn fyrir HM 2034, sem verður einmitt haldið í Sádi-Arabíu.
Real Madrid er enn í baráttunni um tvo titla. Liðið er komið í úrslitaleik spænska konungsbikarsins þar sem það mætir erkifjendum sínum í Barcelona, en möguleikinn á að vinna La Liga er minni í ljósi þess að Börsungar eru með 4 stiga forystu þegar lítið er eftir af móti.
Athugasemdir