"Þetta er fyrsti sigur í deild gegn KR síðan 2016 þegar Garðar Gunnlaugs skoraði geggjað mark í Frostaskjólinu. Þetta var frábær sigur. Mér fannst við stórkostlegir í fyrri hálfleik og ótrúlegt að við höfum farið inn í hálfleikinn án þess að skora," sagði glaðlyndur Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, eftir 2-1 sigur gegn KR í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍA 2 - 1 KR
"Ég hef svo mikla trú á þessum hóp að það var aldrei spurning í mínum huga að við myndum vinna þennan leik. Það var auðvitað hundleiðinlegt að setja einhverja spennu í þetta í lokin en mér fannst sigurinn fyllilega verðskuldaður og rúmlega það."
KR minnkaði muninn í uppbótartíma og fékk svo hornspyrnu alveg í lokin. Voru taugarnar þandar þá?
"Já og nei. Það hefði auðvitað verið hræðilegt að missa þetta niður í jafntefli. En við áttum sigurinn fyllilega skilið."
Eftir leikinn situr ÍA í 4. sæti deildarinnar. Hefði Jón ekki tekið því fyrir mótið? "Það er langt eftir af tímabilinu. Það er enginn tímapunkur að spá í það núna. En við erum ánægðir með holninguna á liðinu og hópnum."
Allt viðtalið við Jón Þór má sjá í spilaranum hér að ofan.