Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 18. ágúst 2019 14:00
Brynjar Ingi Erluson
Ashley Cole leggur skóna á hilluna (Staðfest)
Ashley Cole er hættur
Ashley Cole er hættur
Mynd: Getty Images
Enski vinstri bakvörðurinn Ashley Cole er búinn að leggja skóna á hilluna en þetta staðfesti hann í dag.

Cole, sem er 38 ára gamall, á magnaðan feril að baki en ferill hans hófst hjá Arsenal þar sem hann var lykilmaður í liðinu og meðal annars partur af liðinu sem fór taplaust í gegnum tímabilið 2003-2004.

Hann ákvað að söðla um og samdi hann við Chelsea árið 2006 en það þótti afar óvinsæl ákvörðun hjá honum og eflaust margir stuðningsmenn Arsenal sem munu aldrei fyrirgefa honum það.

Hann lék þar í átta ár eða til 2014 er hann samdi við ítalska félagið Roma en honum vegnaði ekki eins vel þar og á Englandi. Eftir tvö ár á Ítalíu hélt hann til Bandaríkjanna að spila fyrir Los Angeles Galaxy áður en hann gerði samning við Derby County í janúar á þessu ári.

Hann spilaði þá fyrir sinn fyrrum liðsfélaga, Frank Lampard, en hann gerði samning út tímabilið og hefur nú ákveðið að kalla þetta gott.

Cole vann ensku úrvalsdeildina þrisvar á ferlinum auk þess sem hann vann FA-bikarinn sjö sinnum. Hann vann þá einnig Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildina auk þess sem hann lék 107 leiki fyrir enska landsliðið.

Hann lék 702 leiki með félagsliðum og skoraði 21 mark.

Magnaður ferill að baki en hann er nú farinn að taka að sér störf sem sparkspekingur á Sky Sports.
Athugasemdir
banner
banner
banner