Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   þri 18. október 2022 11:03
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Með bróður og besta vin í HK en valdi Val eftir góða heimavinnu
Orri Sigurður Ómarsson.
Orri Sigurður Ómarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri varð fyrir því óláni að slíta krossband fyrir tímabilið.
Orri varð fyrir því óláni að slíta krossband fyrir tímabilið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Val.
Í leik með Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjónsson, fyrrum þjálfari Vals.
Heimir Guðjónsson, fyrrum þjálfari Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég held ég hafi aldrei lagt jafnmikla vinnu í eina ákvörðun eins og að framlengja við Val núna'
'Ég held ég hafi aldrei lagt jafnmikla vinnu í eina ákvörðun eins og að framlengja við Val núna'
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK.
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Orri Sigurður Ómarsson skrifaði nýverið undir nýjan samning við Val sem gildir næstu tvö árin.

Orri, sem er uppalinn hjá HK, gekk í raðir Vals árið 2015 en hann hefur einnig spilað í Noregi með Sarps­borg og HamKam og þá var hann á mála hjá AGF í Danmörku á sínum tíma.

Orri hefur ekkert spilað með í sumar vegna erfiðra meiðsla. Hann varð fyrir því óláni að slíta krossband í apríl síðastliðnum, rétt áður en mótið hófst.

Stefnir á að byrja að spila í Lengjubikarnum
Hann segir að endurhæfingin hafi gengið mjög vel en stefnan er sett á það að byrja að spila fótbolta á nýjan leik í febrúar eða mars á næsta ári.

„Það hefur gengið mjög vel. Ég ætla ekki að segja framar vonum en það er búið að ganga mjög vel. Ég er á áætlun og það horfir á besta veg," segir Orri í samtali við Fótbolta.net.

Engin bakslög eða neitt vesen?

„Nei, ekki enn allavega. Það eru ákveðnir 'checkpoints' í þessu þar sem hefði getað komið bakslag en það hefur ekki enn gerst. Við vonum að það gerist ekki. Ég hef verið að rekja boltann, skokka aðeins og æfa léttar sendingar. Svo hef ég verið að hlaupa sem mest, fá höggið á hnéð sem mest. Einsi sjúkraþjálfari sér alveg um að stjórna álaginu á mér."

„Þetta gerist í apríl og ég fer í aðgerð í maí. Þetta eru sirka fimm mánuðir," segir Orri. „Við erum að gera ráð fyrir því að ég verði leikfær alveg í febrúar, mars þegar Lengjubikarinn er að byrja. Fyrir það verð ég alveg byrjaður að æfa með liðinu og að spila á æfingum."

Verstu meiðslin en horfir á björtu hliðarnar
Þegar Orri er spurður að því hvort að um verstu meiðslin á ferlinum sé að ræða, þá hikar hann ekki. Það sé klárt mál.

„Ég held að mesta sem hafði áður gerst við mig á ferlinum var að ég sneri mig á ökkla," segir hann. „Ég hef aldrei meiðst neitt af viti. Ég held að það sé að hjálpa mér í endurhæfingunni að ég hafi aldrei meiðst neitt almennilega. Í raun og veru var þetta eins lítið slit og hægt er, ef hægt er að segja það. Ég skaddaði liðböndin eiginlega ekki neitt og liðþófinn er í heilu lagi."

Orri spilaði mjög vel á undirbúningstímabilinu með Val og var búist við því að hann yrði byrjunarliðsmaður í hjarta varnarinnar við hlið Hólmars Arnars Eyjólfssonar.

„Þetta var svekkjandi, ég ætla ekki að ljúga því. En á sama tíma var ég mjög fljótur að sætta mig við þetta. Það var fullt af fólki sem hafði samband við mig og sagði mér að ég myndi læra helling á þessu, maður kynnist sjálfum sér upp á nýtt. Það er alveg rétt. Ég ákvað að horfa á þetta þannig, að þetta yrði eitthvað sem ég myndi þroskast við og fá gleðina fyrir fótboltanum aftur - meiri gleði fyrir leiknum áður en ég sleit. Ég vissi að tímabilið yrði strax 'off' og ég var ekkert að svekkja mig á því að ég væri ekki að fara að ná einhverjum leikjum. Það var strax klippt af planinu að það væri eitthvað að fara að gerast."

Tók stöðuna með Heimi fyrir æfingaferð
Orri hafði verið að spila nokkuð mikið í bakverðinum hjá Heimi Guðjónssyni, þáverandi þjálfara Vals, áður en kom að æfingaferð fyrir mót. Hann var orðaður við önnur félög síðasta vetur en ákvað að halda kyrru í Val eftir að hafa fundið fyrir stuðningi frá Heimi.

„Ég heyrði ekkert í öðrum félögum fyrir mót. Ég tók stöðuna með Heimi fyrir æfingaferð. Ég spurði hvernig mín framtíð væri. Ég var að spila vinstri bakvörðinn mikið og hafði eiginlega ekki áhuga á því að spila þá stöðu aftur þetta tímabil. Ég sagði Heimi það. Hann sagði mér að vera þolinmóður, hann hefði hlutverk fyrir mig. Það var síðan í miðverðinum eftir æfingaferðina," sagði Orri en hann fór í engar viðræður við önnur félög.

Heimir talaði um það að Orri hafi verið besti leikmaður Vals á undirbúningstímabilinu.

„Ég var búinn að eiga mjög flott undirbúningstímabil, ég get alveg sagt það. Mér fannst ég og Hólmar vera að smella mjög vel saman á undirbúningstímabilinu. Það er mikið hrós að hann hafi sagt það," segir Orri.

Hringdi sirka tíu símtöl
Fyrir stuttu var Arnar Grétarsson ráðinn nýr þjálfari Vals. Orri er spenntur fyrir því að vinna með honum.

„Viðræður voru búnar að standa yfir í nokkurn tíma. Á sama tíma var ég að spjalla við tvö önnur félög. Ekki neitt sem fór eitthvað lengra en bara samningstilboð," segir Orri en hann leit á þetta sem mjög mikilvæga ákvörðun þar sem hann er á leið inn í sín bestu ár á ferlinum. Hann er 27 ára, fæddur 1995.

„Ég held ég hafi aldrei lagt jafnmikla vinnu í eina ákvörðun eins og að framlengja við Val núna. Það gerist mikið á Hlíðarenda. Við erum að fara að fá nýtt þjálfarateymi og nýja leikmenn. Ég er að fara inn í mjög mikilvæg ár á mínum fótboltaferli núna og ég vildi vera með það alveg á hreinu út í hvað ég væri að fara. Ég held ég hafi hringt sirka tíu símtöl til að spyrjast fyrir um það hvernig Arnar væri, heyrði bæði í leikmönnum sem hafa unnið með honum og samstarfsfélögum hans. Þegar ég var búinn að því þá gekk þetta mjög fljótt fyrir sig."

Orri segist hafa heyrt marga góða hluti um Arnar en þjálfarinn heyrði líka í honum á meðan viðræðurnar stóðu yfir.

„Arnar er búinn að hafa samband við mig, hann hafði samband þegar við vorum í þessum samningaviðræðum og hann sagði mér frá því hvernig hann vildi hafa þetta og hvað hann vill gera. Það hljómaði allt mjög vel hjá honum."

Hann vill hafa mig í HK
Orri er uppalinn í HK og hóf hann feril sinn þar. Bróðir hans, Ómar Ingi Guðmundsson, er þjálfari liðsins og besti vinur hans, Ívar Örn Jónsson, leikur með liðinu. Það hafa verið sögur um að HK hafi reynt að fá Orra.

„Ég þekki hann eitthvað," segir Orri þegar hann er spurður út í bróður sinn.

„Við höfum rætt það ófáum sinnum hvort sem það er núna eða síðustu sjö árin þar sem ég hef verið á Íslandi. Hann vill hafa mig í HK. Ég tók samtalið við hann. Það kitlar alltaf (að spila fyrir Ómar), ég mun aldrei neita því. Auðvitað vil ég spila með besta vini mínum og fyrir bróður minn, en þetta var ekki alveg rétti tímapunkturinn."

HK var að komast upp í Bestu deildina á nýjan leik en það er líklegt að liðið verði að berjast í neðri hlutanum á næstu leiktíð. Hjá Val er krafan sú að vinna báða titla.

Annars væri ég ekki að skrifa undir nýjan samning
Orri kveðst spenntur fyrir næstu leiktíð með Val, en liðið hefur núna átt tvö vonbrigðartímabil í röð.

„Mér líst vel á þetta. Annars væri ég ekki að skrifa undir nýjan samning," segir Orri og heldur áfram: „Það sem ég hef heyrt af Arnari, þá held ég að hann sé að fara að koma inn með nákvæmlega það sem Valur þarf og það sem við sem fótboltamenn þurfum. Ég held að þetta sé mjög fín ráðning. Eins og Arnar talaði við mig, þá held ég að hann sé að fara að tækla réttu hlutina. Við þurfum að taka undirbúningstímabilið vel og finna gleðina aftur."

„Það verður alltaf markmiðið bæði út á við og inn á við að taka alla titla sem eru í boði. Ég held samt að á sama tíma þurfum við leikmenn að vinna í okkur sjálfum og vinna í okkur sem liði áður en við getum farið að horfa á einhverja titla akkúrat núna," sagði Orri Sigurður Ómarsson, miðvörður Vals, en það verður gaman að sjá hann aftur út á velli eftir erfið meiðsli.

Sjá einnig:
Arnar spenntur fyrir nýju verkefni: Varð aldrei nein spurning
Athugasemdir
banner
banner