Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   lau 15. október 2022 13:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Arnar spenntur fyrir nýju verkefni: Varð aldrei nein spurning
Arnar Grétarsson, nýráðinn þjálfari Vals.
Arnar Grétarsson, nýráðinn þjálfari Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar og Hallgrímur Jónasson.
Arnar og Hallgrímur Jónasson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar hefur stýrt KA frá því um mitt sumar 2020.
Arnar hefur stýrt KA frá því um mitt sumar 2020.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Vals og KA.
Úr leik Vals og KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar er spenntur fyrir því verkefni að stýra Val.
Arnar er spenntur fyrir því verkefni að stýra Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már Sævarsson er á meðal leikmanna sem hafa framlengt við Val að undanförnu.
Birkir Már Sævarsson er á meðal leikmanna sem hafa framlengt við Val að undanförnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri Sigurður Ómarsson framlengdi við Val í dag.
Orri Sigurður Ómarsson framlengdi við Val í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar tekur við Val þegar tímabilinu lýkur.
Arnar tekur við Val þegar tímabilinu lýkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá Origo-vellinum, heimavelli Vals.
Frá Origo-vellinum, heimavelli Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur er félag sem stefnir alltaf á að vinna báða titlana.
Valur er félag sem stefnir alltaf á að vinna báða titlana.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur tilkynnti það fyrr í þessari viku að Arnar Grétarsson væri nýr þjálfari karlaliðs félagsins.

„Ég er rosalega spenntur fyrir þessu verkefni. Þetta verður krefjandi en á sama tíma held ég að þetta verði rosalega skemmtilegt," segir Arnar í samtali við Fótbolta.net.

Arnar var landsliðs- og atvinnumaður. Hann lék með félögum eins og Rangers, AEK Aþenu, Lokeren og þá lék hann 72 leiki með A-landsliði Íslands. Eftir að leikmannaferlinum lauk tók Arnar við sem tæknilegur ráðgjafi hjá AEK Aþenu í Grikklandi og síðar sem yfirmaður fótboltamála hjá Club Brugge í Belgíu.

Þjálfaraferill Arnars hófst hjá Breiðabliki. Síðar tók hann við liði Roeselare í Belgíu áður en hann tók við stjórnartaumum hjá KA um mitt sumar 2020.

Engin leiðindi eða neitt svoleiðis
Arnar tók við KA um mitt sumar 2020 og hefur náð eftirtektarverðum árangri sem þjálfari Akureyrarliðsins síðustu ár. Liðið rétt missti af Evrópusæti í fyrra og núna er félagið búið að tryggja sér það að leika í Evrópukeppni á næstu leiktíð.

Félagið tók ákvörðun um að gera þjálfarabreytingu eftir að Arnar náði samkomulagi við Val. Hugur Arnars leitaði suður þar sem fjölskylda hans er þar.

„Maður getur í raun og veru ekkert sett út á það," segir Arnar um viðskilnaðinn við KA. „Þeir gátu tekið þá ákvörðun sem þeir tóku og líka leyft mér að klára. Ég hef ekkert út á það að segja fyrst þeir tóku þessa ákvörðun. Það er bara þeirra að vilja fara þessa leið og það er eitthvað sem ég verð að virða. Það er allt í góðu á milli okkar, það er engin leiðindi eða neitt svoleiðis."

„Ég kem þarna inn árið 2020 í enda júnímánaðar. Þá er KA í bölvuðu basli. Það var ástæðan fyrir því að þeir skiptu um þjálfara á miðju tímabili. Þetta var jafnteflisár, við gerðum mikið af jafnteflum en eigum líka marga fína leiki. Frá því ég tók við var mikill stígandi."

„Liðið átti mjög gott tímabil í fyrra þar sem KR nær í síðasta leik að skjótast fram úr okkur í keppni Evrópusæti. Það var sorglegt að ná ekki að klára það. Við vorum í titilbaráttu alveg fram í blálokin. Við spilum við Breiðablik heima og úti seint á tímabilinu í sömu vikunni og töpum þeim báðum. Það voru jafnir leikir, en þar dettum við út í titilbaráttunni. Á endanum missum við Evrópusæti með því að gera jafntefli við FH heima í lokaleik. Þá kemst KR upp fyrir okkur," segir Arnar en KA náði að fylgja eftir þeim góða árangri í ár og tryggja sér Evrópusæti.

„Við fylgdum góðum árangri 2021 eftir með góðri frammistöðu núna. Þegar maður lítur yfir þá æfingaaðstöðu sem KA býr við - flakkandi á milli Dalvíkur og Akureyrar - þá er með ólíkindum hvað liðið náði að gera. Miðað við allar þessar aðstæður sem liðið hefur búið við. Liðið hefur verið að spila mjög vel í allt sumar og ég held að það sé fyllilega sanngjarnt að það sé á þeim stað sem það er í dag. Leikmenn, þjálfarar og þeir sem komu að liðinu lögðu allir gríðarlega mikið á sig og þess vegna er liðið á þeim stað sem það er á núna."

„Stefnan var alltaf sett á að komast í Evrópukeppni, lágmark. Við vildum meira samt, við vildum berjast við Blika og Víkinga um þetta efsta sæti. Það vantaði aðeins upp á, en allir þessir leikir við Breiðablik og Víkinga hafa verið hörkuleikir. Það hefur verið lítið á milli í þessum leikjum. Menn þurfa að þroskast og læra af því, taka næsta skref. KA er á flottum stað í dag og ég hef fulla trú á því að Hallgrímur Jónasson haldi áfram og bæti í. Það er flottur drengur og ég hef fulla trú á honum, að hann geti gert flotta hluti með liðið."

Hefur fulla trú á Hallgrími
Eins og Arnar kemur inn á, þá var Hallgrímur Jónasson ráðinn aðalþjálfari KA á dögunum. Hallgrímur, sem er fyrrum landsliðsmaður, hefur starfað við hlið Arnars undanfarin ár.

„Það var mjög fínt að vinna með Hadda, Steina, Igor, Bane og þessum strákum sem ég vann með. Þetta eru algjörir toppmenn," segir Arnar.

„Ég vona að Hadda gangi rosalega vel, ég hef fulla trú á honum. Þetta verður fyrsta tímabilið hans, hann hefur verið leikmaður og núna reynir á hann að taka við stjórnartaumunum. Hann hefur rosalega mikið í þetta að gera, er heiðarlegur og flottur drengur."

„Þeir eru með flottan hóp og flott þjálfarateymi. Það sem gerist líka á næsta ári er að þeir fá nýjan völl í lok júní og þá mun aðstaðan batna til muna. Það eru bjartir tímar framundan hjá KA."

Bara Valur sem hefur samband
Arnar var orðaður við nokkur mismunandi störf áður en hann var ráðinn til Vals. Þá var alls ekki útilokað að hann myndi halda áfram með KA áður en hann samdi við Hlíðarendafélagið.

„Maður heyrði af allskonar sögum en það var ekkert 'concrete'. Ég var ekki búinn að heyra í einum eða neinum. Það var bara Valur sem hefur samband og eitt leiðir af öðru. Svo endar það með því að við náum saman. Þetta er rosalega spennandi félag með mikla möguleika," segir Arnar.

KA ætlaði sér að fara í viðræður við Arnar í september en Valur var eina félagið sem bauð honum samning og tók hann því tilboði. KA virtist bregðast of seint við.

„Það varð aldrei nein spurning því það var bara eitt félag sem bauð mér samning. Það varð mjög auðvelt. Ég er þakklátur fyrir minn tíma á Akureyri. Ég naut þess. Ég átti tvö góð ár þarna. Ég eignaðist marga góða vini þarna og við bjuggum til góðar minningar. Núna tekur nýtt verkefni við og ég er rosalega spenntur fyrir því," segir Arnar.

Það kom ekki til greina að hann tæki við Val núna, áður en tímabilið kláraðist. Hann er enn með samning við KA þangað til um mánaðarmótin og er í leyfi frá Akureyrarfélaginu. Ólafur Jóhannesson stýrir Val út leiktíðina og svo tekur Arnar við að tímabilinu loknu. Það var talið best að hafa það þannig.

Við þurfum að reyna að bæta aðeins í
Valur er í fjórða sæti Bestu deildarinnar og er að missa af Evrópusæti annað árið í röð. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir félagið sem ætlar sér alltaf að berjast um báða titlana.

„Það sem maður hefur séð núna og í fyrra, að liðið getur spilað flottan fótbolta en það vantar meiri stöðugleika í það. Það er rosalega mikið af góðum fótboltamönnum þarna en það er eitthvað sem er ekki alveg að tikka. Við þurfum bara að reyna að bæta aðeins í og reyna að skerpa á ákveðnum stöðum," segir Arnar um Val.

„Það er rosalega mikið til staðar og þú þarft ekkert að gjörbreyta einu né neinu. Það þarf að breyta einhverjum áherslum og svoleiðis. Auðvitað verða nýjar áherslur með nýjum mönnum sem koma inn, það er alveg klárt. Það verða einhverjar mannabreytingar, en það verða ekki róttækar breytingar. Það er ekkert þannig að það koma tíu menn og fara tíu út. Ég á ekki von á því að það verði rosalega margar breytingar en aðalatriðið er að finna topp fótboltamenn í þær stöður sem við erum að leita að."

„Það þarf enginn að spyrja að hverju Valur stefnir, það er alltaf að vinna deildina og bikarinn. Það er alveg ljóst. Það er krafa hjá þessu félagi og það er bara spennandi."

Fjórir leikmenn búnir að framlengja
Núna upp á síðkastið hafa fjórir leikmenn framlengt við Val: Birkir Heimisson, Birkir Már Sævarsson, Orri Sigurður Ómarsson og Sigurður Egill Lárusson. Guðmundur Benediktsson sagði frá því í Stúkunni á dögunum að Valur ætlaði ekki að framlengja við fleiri leikmenn. Síðan þá hafa hins vegar þrír leikmenn framlengt.

„Það er fagnaðarefni að þessir leikmenn verði áfram og hið besta mál. Vonandi bætast við einn eða tveir af þessum strákum á næstu dögum, jafnvel fleiri," sagði Arnar í gær en síðan þá bættist Orri Sigurður við en tilkynnt var um framlengingu á samningi hans fyrr í dag.

„Við erum að vinna hægt og rólega í því að festa þá leikmenn sem við viljum halda - sem eru að renna út á samningi. Svo erum við að líta í kringum okkur með styrkingar í ákveðnar stöður sem við erum að leita að."

Það hafa verið sögur um að Arnar hafi áhuga á því að fá Dusan Brkovic, miðvörð KA, með sér á Hlíðarenda. Hvernig leikmönnum er hann að leita að?

„Það eru alls konar sögur í gangi. Aðalatriðið er að við erum að leita að góðum fótboltamönnum. Við viljum frekar hafa þá í yngri kantinum, með mikla hlaupagetu og hraða. Það er eitthvað sem við erum að skoða. Það er ekkert meira um það að segja, það er ekki komið á það stig að ég geti sagt hvað við erum að leita að. Svo koma vonandi tilkynningar á næstu tveimur, þremur mánuðum um nýja leikmenn. Við erum alveg rólegir, það er ekkert stress með það."

Verið að vinna í því á fullu
Hvað varðar þjálfarateymi þá segir Arnar að verið sé að leggja lokahönd á það. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net þá verður Sigðurður Heiðar Höskuldsson, núverandi þjálfari Leiknis, í teymi Arnars.

„Það er verið að vinna að því á fullu," segir Arnar aðspurður að því hvernig þjálfarateymið muni líta út.

„Ég geri ráð fyrir því að það verði tilkynning með starfsteymið eftir tímabil. Það er ekki allt komið á hreint en það er komið ansi langt. Ég á von á því að það verði tilkynnt í lok tímabils," segir þjálfarinn.

Báðir titlarnir
Valur stefnir á það að berjast um báða titla á næstu leiktíð eftir tvö vonbrigðartímabil. Það eru engin leyndarmál þegar talað er um markmið á Hlíðarenda.

„Það er verið að setja það mikið í þetta hérna á íslenskum mælikvarða að krafan er sú að það á að keppa um báða titla. Ef þú ert í Val - hvort sem það er í fótbolta, handbolta eða körfubolta - þá er það krafan. Það er virkilega gaman að vinna fyrir slík félög," segir Arnar og bætir við:

„Það er alltaf gaman ef þú getur keppt í fremstu röð. Það er mikil áskorun en það er líka gaman. Ég held að flestallir vilji það, en svo er spurning hvað menn eru tilbúnir að leggja á sig. Það eru alltaf þeir sem uppskera sem eru búnir að leggja mest á sig. Þetta er ekkert flókið. Við ætlum að leggja mikið á okkur, vera tilbúnir þegar flautað verður til leiks í apríl á næsta ári. Það er alveg klárt."

Arnar, sem er fyrrum landsliðsmaður, tekur við Val þegar tímabilið klárast í lok mánaðarins. Honum er ætlað að stýra liðinu aftur á toppinn í íslenskum fótbolta.
Athugasemdir
banner
banner
banner