Mikið ber á milli Man Utd og Roma í viðræðum um Zirkzee - Chelsea hyggst styrkja miðsvæðið og er orðað við Mainoo og Wharton
banner
   fim 18. desember 2025 12:00
Elvar Geir Magnússon
Fékk eina æfingu til að læra nýja stöðu
Hinn 19 ára gamli Lewis Miley skoraði sigurmark Newcastle.
Hinn 19 ára gamli Lewis Miley skoraði sigurmark Newcastle.
Mynd: EPA
Newcastle vann 2-1 sigur gegn Fulham í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins í gær. Hinn 19 ára gamli Lewis Miley skoraði dramatískt sigurmark í lokin.

Miley, sem er miðjumaður, byrjaði í fyrsta sinn sem hægri bakvörður í leiknum en hann fékk að vita það að morgni leikdags að hann þyrfti að leysa þá stöðu.

Meiðsli herja á varnarmenn Newcastle en Kieran Trippier, Lewis Hall, Dan Burn, Emil Krafth og nú Tino Livramento glíma við meiðsli.

„Miley fékk bara eina æfingu til að læra hvernig eigi að spila hægri bakvörð. Ég vil ekki setja meiri pressu á herðar hans en hann getur verið eins góður og hver annar, hvaða stöðu sem hann spilar," segir Eddie Howe, stjóri Newcastle.

„Mér fannst hann framúrskarandi sem hægri bakvörður. Hann hefur vaxið sem miðjumaður og er orðinn öruggari. Mörkin bætast svo ofan á. Hann er með eitthvað af öllu og ég met hann gríðarlega mikið."

Leikurinn var á leið í framlengingu þegar Miley skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Newcastle mun mæta Manchester City í undanúrslitum keppninnar.

„Ég iða allur. Þetta er óraunveruleg tilfinning. Þetta er uppeldisfélag mitt og tilfinningin gæti ekki verið betri. Vonandi komumst við í úrslitaleikinn," sagði Miley eftir leik í gær.
Athugasemdir