Alberth Elis landsliðsmaður Honduras er að snúa aftur í fótboltann í heimalandi sínu, 11 mánuðum eftir að hafa lent í alvarlegum höfuðmeiðslum í deildarleik í Frakklandi.
Framherjinn sem er 28 ára gamall hefur gert eins árs samning við Olimpia sem er eitt af toppliðum deildarinnar í Honduras en þar hóf hann feril sinn sem atvinnumaður í fótbolta.
Elis þurfti að gangast undir skurðaðgerð og var látinn vera í dái fyrst um sinn eftir að hafa lent í samstuði við mótherja í leik með Bordeaux í febrúar í fyrra.
Hann var í mánuð á sjúkrahúsi en fékk svo að fara heim.
„Þegar ég vaknaði úr dáinu mundi ég ekki að ég væri fótboltamaður," sagði Elis við Athletic í nóvember.
„Ég mundi ekki að ég væri í Frakklandi, mundi ekki að ég væri frá Honduras. Læknarnir bjuggust við að þetta yrði erfið endurhæfing hjá mér. Fyrstu tvær vikurnar voru það líka, því andlega var ég ekki í lagi. En mér batnaði með hverjum deginum."
Hann missti samning sinn hjá Bordeaux á meðan endurhæfingunni stóð því félagið var í miklum fjárhagskröggum og þurfti að hætta að starfa sem atvinnumannafélag. Í kjölfarið var það dæmt til að falla niður í fjórðu deild.
Athugasemdir