Pólski markvörðurinn Wojciech Szczesny lagði markmannshanskana á hilluna síðasta sumar eftir sjö ára dvöl hjá Juventus en tók þá aftur niður skömmu síðar til að ganga í raðir Barcelona eftir slæm meiðsli Marc-André ter Stegen.
Hinn 34 ára gamli Szczesny hefur gert flotta hluti með Barcelona og er við það að gera nýjan eins árs samning við félagið.
„Ég er spenntur fyrir Barcelona útaf fótboltanum sem liðið spilar. Þetta er mjög fallegur fótbolti og það kemur ekki á óvart að hann hefur hrifið milljónir áhorfenda víða um heim í gegnum tíðina. Þetta er ótrúlega skemmtilegur sóknarbolti þar sem leikgleðin ræður ríkjum," sagði Szczesny.
„Juventus einbeitir sér fyrst og fremst að því að ná árangri, á meðan Barcelona einbeitir sér meira að því að vera með öflugan leikstíl og spila fallegan fótbolta."
Joshua Barnett umboðsmaður Szczesny tjáði sig um framtíð skjólstæðings síns á dögunum.
„Það verður ekkert mál að ná samkomulagi við Barcelona um nýjan samning. Allir aðilar eru ánægðir með fyrirkomulagið."
Athugasemdir