Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   fös 19. apríl 2024 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Hugsaði um að hætta - „Erfiðasti tími fótboltamannsins er alltaf utan vallar"
,,Gerði mjög mikið fyrir mig að ná að komast aftur á völlinn"
Á þessu tímabili á núna þá hefur oft verið að glytta í ljósið, en svo slökknar á því aftur
Á þessu tímabili á núna þá hefur oft verið að glytta í ljósið, en svo slökknar á því aftur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Maður er ekki fótboltamaður til þess að hanga í ræktinni að styrkja sig en komast svo ekki út á völlinn
Maður er ekki fótboltamaður til þess að hanga í ræktinni að styrkja sig en komast svo ekki út á völlinn
Mynd: Getty Images
Landsliðsfyrirliðinn spilaði gegn Liechtenstein og Slóvakíu síðasta haust.
Landsliðsfyrirliðinn spilaði gegn Liechtenstein og Slóvakíu síðasta haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Að koma inn á völlinn - þó að þetta hafi ekki verið nema 20 mínútur - og ná í titil, það gerði svo mikið fyrir mann.'
'Að koma inn á völlinn - þó að þetta hafi ekki verið nema 20 mínútur - og ná í titil, það gerði svo mikið fyrir mann.'
Mynd: Getty Images
Þó að maður sé orðinn það veðraður að maður þarf ekkert að sýna sig og sanna, þá er hungrið til þess samt alltaf til staðar
Þó að maður sé orðinn það veðraður að maður þarf ekkert að sýna sig og sanna, þá er hungrið til þess samt alltaf til staðar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson sneri aftur á völlinn síðasta föstudag þegar liðið hans, Al Arabi, vann lið Sharjah í Ofurbikar Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Aron hafði þá ekki spilað með Al Arabi í tæpt ár eða frá 12. maí í fyrra.

Þetta var þriðji bikarinn sem hann vinnur með Al Arabi en hann vann Emírbikarinn á síðasta ári og Qatari FA-bikarinn árið á undan.

Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá Aroni á tímabilinu. Hann var upphaflega ekki skráður í leikmannahóp Al Arabi og ætlaði að finna sér lið til að spila með á láni. Það varð hins vegar aldrei neitt úr því vegna meiðslanna. Aron ræddi við Fótbolta.net í dag.

„Það var langur aðdragandi, ég vissi af þessum leik, búinn að vita af honum lengi. Ég var búinn að æfa sex sinnum með liðinu áður en leikurinn var og var búinn að vera með fitness þjálfara á grasi í tvær vikur þar á undan. Ég var að undirbúa það að geta spilað 20-30 mínútur í þessum leik og það virkaði. Formið er náttúrulega ekki gott, en það er að koma hægt og rólega. Það er þannig séð ekkert bakslag eftir leikinn, mér líður ágætlega og er kominn aftur í venjulega 'recovery' rútínu; ræktin einn dagur og grasið næsti dagur. Þannig er ég að vinna mig í gegnum þessi meiðsli."

„Ég fór í aðgerð fyrir fimm mánuðum, búin að vera leiðinleg meiðsl. Hásinaaðgerðir annað hvort heppnast eða heppnast ekki, mín heppnaðist sem betur fer vel, en það er samt ennþá einn punktur sem við erum að vinna í. Það er búið að halda aðeins aftur af mér og búið að taka lengri tíma en áætlað var. Ég er á góðu róli núna og ég stefni á að vera klár þegar ég þarf að vera klár."


Al Arabi á tvo deildarleiki eftir áður en tímabilinu lýkur.

„Ég má ekki spila í deildinni, reglurnar eru þannig að þú mátt vera með sjö útlendinga. Í bikarleiknum eru öðruvísi reglur, í Dúbaí má vera með átta útlendinga þannig við máttum líka vera með átta útlendinga í hópnum og þess vegna mátti ég vera með í leiknum. Ég er á þeim stað að ég gæti alveg verið í hópnum núna ef ég mætti það. Ég er að taka mér tíma í að koma mér til baka og það er að heppnast hægt og rólega."

Spilaði einungis tvo leiki á 11 mánaða kafla
Frá því að tímabilinu lauk í Katar fyrir tæpu ári síðan hefur Aron komið inn á sem varamaður í tveimur landsleikjum og kom svo inn á síðasta föstudag. Mínúturnar eru ekki fleiri.

Hvernig er fyrir fótboltamann að vera lengi frá, tekur það mikið á?

„Þetta tekur mjög á andlega. Þú hefur ábyggilega tekið viðtöl við leikmenn sem díla við erfið meiðsli. Það segja allir það sama. Maður vill vera á fótboltavellinum, maður er fótboltamaður til þess að spila fótbolta, maður er ekki fótboltamaður til þess að hanga í ræktinni að styrkja sig en komast svo ekki út á völlinn. Það segir sig svolítið sjálft. Erfiðasti tími fótboltamannsins er alltaf utan vallar. Hvort sem þú ert að díla við meiðsli eða eitthvað annað".

„Þú gengur í gegnum í þessi göng, talað um ljósin í enda ganganna og allt það. Á þessu tímabili á núna þá hefur oft verið að glytta í ljósið, en svo slökknar á því aftur. Þetta er búið að vera upp og niður í gegnum þessi meiðsli. Þau hafa verið einhver erfiðustu meiðsli sem ég hef þurft að díla við. Ég hef reglulega verið með eitthvað lítið hér og þar, en þetta eru erfiðustu meiðslin sem ég hef þurft að díla við á mínum ferli. Það hefur tekið á andlega. Erfiðleikarnir styrkja mann og láta menn vera hungraðri í því að koma til baka og sýna sig og sanna. Þó að maður sé orðinn það veðraður að maður þarf ekkert að sýna sig og sanna, þá er hungrið til þess samt alltaf til staðar. Það er það góða við það."


Talandi um ljósið og göngin, hugsaðir þú einhvern tímann um það að hætta?

„Það hefur oft komið upp að maður hugsi að það sé kominn tími á að hætta. Ég vissi alveg fyrir þessa aðgerð, meiðslin eru það leiðinleg. Læknirinn sagði að ferillinn gæti verið búinn. Það var allt í góðu. Það er aðeins auðveldara að fá þær fréttir þegar maður er 34-35 ára heldur en þegar maður er mikið yngri. Sem betur er ég á góðum stað hvað þetta varðar; með Aspetar (sjúkrahúsið) og með gott fólk í kringum mig, með fjölskylduna sem gefur mér andlegan styrk. Það þarf að eiga góða að til þess að keyra sig í gegnum svona hluti og ég hef alveg fundið fyrir því."

„Ég get alveg viðurkennt að maður hafi hugsað stundum með sér að þetta fari að vera komið gott. En svo þegar maður nær annarri orku, fær meðbyr og manni líður eins og þetta sé að fara koma, þá fær maður fiðringinn aftur. Að koma inn á völlinn - þó að þetta hafi ekki verið nema 20 mínútur - og ná í titil, það gerði svo mikið fyrir mann. Það að áorka það að ná að koma sér aftur inn á völlinn gerði mjög mikið fyrir mig,"
sagði Aron.

Þetta er fyrsti kaflinn af þremur í viðtalinu við Aron. Hinir kaflarnir verða birtir síðar í dag.
Athugasemdir
banner
banner