Pochettino á radar Man Utd og Bayern - McKenna orðaður við Chelsea - Slot við Kökcu til Liverpool
banner
   fös 19. apríl 2024 13:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óli komið skemmtilega á óvart - „Hafði örugglega gott af þessari breytingu"
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Þróttur fagnar marki síðasta sumar.
Þróttur fagnar marki síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Álfhildur og Sæunn.
Álfhildur og Sæunn.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Prófessorinn Ólafur Kristjánsson er mættur í Laugardalinn og tekinn við Þrótti. Hann tekur við starfinu af Nik Chamberlain sem var ráðinn þjálfari Breiðabliks, en Nik hafði starfað sem þjálfari Þróttar frá 2016.

Ólafur var síðast hjá Breiðabliki sem yfirmaður fótboltamála en hann hefur á sínum þjálfaraferli stýrt Fram, Breiðabliki, Nordsjælland, Randers, Esbjerg og FH.

Hann hefur aldrei áður þjálfað kvennalið fyrr en núna en hann sagði í viðtali við Fótbolta.net í október síðastliðnum að ætti nokkra eftir í þjálfun og að þjálfa í kvennaboltanum væri eitt þeirra. „Það var ekki margt sem gat togað mig í að þjálfa aftur," sagði Ólafur en verkefnið hjá Þrótti togaði í hann.

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir og Sæunn Björnsdóttir, leikmenn Þróttar, mættu í Niðurtalninguna hér á Fótbolta.net í vikunni og töluðu þar aðeins um þjálfarabreytinguna. Þær eru mjög ánægðar með það hvernig Óli hefur komið inn.

„Ég held að það hafi verið gott fyrir alla leikmenn liðsins að fá breytingu og ég held að það hafi verið gott fyrir Nik líka," sagði Sæunn.

„Við söknum hans alveg en ég held að þetta hafi verið mjög góð breyting. Við fáum gríðarlega stóran þjálfara og það er risastórt hjá Þrótti að landa honum. Hann er tilbúinn að gefa allt í þetta og hefur sýnt svo mikinn vilja að hjálpa okkur að bæta okkur. Hann er með nýjar áherslur og mjög skemmtilegar æfingar."

„Mér fannst hrikalega erfitt að kveðja Nik og það var mjög dramatískt. Hann er búinn að vera að þjálfa mig frá því ég var 14 ára eða 15 ára. Hann hefur kennt mér allt sem ég eiginlega kann í fótbolta. Þetta var ótrúlega erfitt og mikið stress hjá mér. En um leið og við fengum Óla, þá róaðist ég niður. Ég hafði örugglega gott af þessari breytingu og að læra nýja hluti," sagði Álfhildur. „Ég held að þetta geti verið mjög jákvætt fyrir mig sem leikmann og bara liðið líka."

Það er mikil spenna fyrir þessari ráðningu.

„Ég held að allir sem fylgjast með fótbolta hafi spurt mig hvernig Óli sé. Það hafa allir mjög mikinn áhuga á að vita hvernig hann er. Hann hefur komið ótrúlega mikið á óvart. Ég hélt að hann væri þessi rosalega harða týpa sem væri ekki hægt að tala við, en hann er rosalega þægilegur og hann er mjög fyndinn. Það er húmor í honum. Þjálfaralega séð er hann er ótrúlega klár og veit allt um fótbolta. Ég er að fýla leikkerfin sem hann er að láta okkur spila og þær áherslur sem hann er að koma með eru mjög góðar," sagði fyrirliðinn og tók Sæunn undir það.

„Þjálfunaraðferðir hans eru öðruvísi en hjá Nik og ég held að það sé mjög gott fyrir okkur að fá öðruvísi hvatningu og öðruvísi gagnrýni. Við erum að bregðast vel við því. Við erum að skipta alveg um leikkerfi og fullt af leikmönnum eru að læra alveg nýtt kerfi. Hann tekur bara vel í það og er tilbúinn að prófa alls konar. Hann er mjög opinn og þægilegur, og er tilbúinn að aðlagast okkur eins og við erum tilbúnar að aðlagast honum. Ég held að sé mjög fín samvinna sem er að myndast þarna."

„Það sést á honum hvað honum finnst þetta ótrúlega skemmtilegt og hann segir oft við okkur hvað honum finnst gaman að mæta á æfingar. Það skín af honum og smitast til okkar líka," sagði Álfhildur.

Verða mjög áhugaverðir leikir
Leikirnir á milli Þróttar og Breiðabliks verða mjög áhugaverðir í sumar, það er klárt.

„Ég held að það verði mjög skemmtilegt að mæta á þá leiki. Bæði lið vilja mjög mikið vinna og þjálfararnir vilja mjög mikið vinna. Svo erum við líka að keppa á móti Ollu og Andreu sem voru í Þrótti. Það er barátta þar líka. Það verður gaman að fylgjast með Sóleyju og Ollu á vellinum," sagði Álfhildur. „Ég mæli með því fyrir alla að koma á þá leiki."

Hægt er að hlusta á allan þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan.
Niðurtalningin - Nýir tímar í Laugardalnum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner