þri 19. október 2021 18:26
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Aron Jó: Mikið talað um þann möguleika að spila með Kidda
Aron Jóhannsson.
Aron Jóhannsson.
Mynd: Getty Images
Aron og Kiddi Freyr léku saman hjá Fjölni.
Aron og Kiddi Freyr léku saman hjá Fjölni.
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Aron í leik með bandaríska landsliðinu.
Aron í leik með bandaríska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Aron Jóhannsson er án félags eftir að hann gerði starfslokasamning við pólska félagið Lech Poznan í ágúst. Aron meiddist á öxl í ágúst og var ákveðið að slíta samstarfinu en Aron var samningsbundinn til áramóta.

Aron hefur verið orðaður við heimkomu til Íslands og hefur verið greint frá því að hann hafi fundað með Breiðabliki og Val. Aron ræddi við Fótbolta.net í dag og staðfesti að hann hefði einnig rætt við FH.

Aron er fæddur árið 1990 og uppalinn í Fjölni þar sem hann spilaði þrjú tímabil með liðinu áður en hann var seldur til AGF í Danmörku. Þar sló hann í gegn. Síðasta vetur æfði hann með Val áður en hann samdi við Lech Poznan.

Poppar alveg 100% eitthvað upp erlendis í janúar
„Ég get ekki sagt þér mikið, er bara að velta fyrir mér ýmsum möguleikum, hvort ég ætli að koma heim eða vera úti," sagði Aron við Fótbolta.net í dag. Fréttaritari spurði Aron hvort hann væri ákveðinn í að spila á Íslandi á næsta tímabili.

„Nei, það er ekki ákveðið að ég komi heim en það er alveg líklegt og örugglega meiri líkur en ekki. Það er erfitt að segja til um það því það poppar alveg 100% eitthvað upp erlendis í janúar. Það er bara spurning hvort það sé nógu áhugavert fyrir mig og fjölskylduna að fara út í það."

Vill finna sér lið fyrir janúar
Ert þú tilbúinn að bíða fram í janúar og taka ákvörðun þá?

„Nei, ég held ég muni finna mér lið hérna heima áður og ræða um hvort ég megi æfa með því liði fram í janúar og ef ekkert kemur svo erlendis skrifa undir eftir það eða hvort ég skrifi undir fyrir þann tíma. Eins og ég segi þá get ég ekki gefið þér nein almennileg svör varðandi það."

Kominn í gott æfingastand
Hvernig er standið á þér? „Það eru bara tveir mánuðir síðan ég fór í aðgerð út af öxlinni þannig ég er bara að komast í gang aftur, er bara í ræktinni og í sjúkraþjálfun. Ég er búinn að koma mér í ágætt æfingastand þannig ég ætti að geta byrjað að æfa bráðum."

Auðvitað til í að spila með Kidda Frey
Það hefur talað um að þú og Kristinn Freyr Sigurðsson séuð góðir vinir. Væri spennandi að spila með honum?

„Já, Kiddi er einn af mínum bestu vinum og við höfum mikið talað um þann möguleika. Í fyrsta lagi þyrfti FH að vilja fá mig þar sem hann er búinn að skrifa undir þar. Auðvitað væri ég alveg til í að spila með honum. Ég skoða alla möguleika, skoða þau lið sem vilja fá mig og svo mun ég setjast niður með sjálfum mér og velja á milli."

Sum lið meira spennandi en önnur
Hafa mörg félög á Íslandi rætt við þig? Er eitthvað líklegra en annað? „Já, ég hef talað við nokkur lið, farið og sest niður og rætt málin við nokkur lið. Að sjálfsögðu eru sum lið meira spennandi en önnur en eins og staðan er núna get ég ekki gefið meira upp."

Hefur rætt við FH
Þú komst inn á að FH þyrfti að hafa áhuga á þér til þess að möguleiki sé á því að þú og Kiddi mynduð spila saman. Er FH eitt af þeim félögum sem þú hefur talað við?

„Já, við höfum aðeins talað saman," sagði Aron.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner