„Mér líður mjög vel," sagði Elfar Árni Aðalsteinsson, fyrirliði KA í sigri gegn Vestra í dag. Elfar hefur ekki verið í stóru hlutverki með KA í sumar en nýtti tækifærið og skoraði bæði mörk liðsins.
Lestu um leikinn: KA 2 - 1 Vestri
„Þetta er það sem við ætluðum að gera eftir skitu síðast, við viljum ekki enda mótið á þeim nótum þannig það var ekkert annað í boði en að vinna síðasta heimaleikinn. Maður er ekki búinn að fá margar mínútur í sumar. Það var gaman að fá að byrja í dag og ná að skora tvö mörk."
„Það er alltaf erfitt að vera í litlu hlutverki en maður verður að halda áfram að berjast fyrir þeim mínútum sem maður getur fengið en því miður fyrir minn smekk hefur það verið alltof lítið. Maður þarf þá bara að sýna þegar maður fær mínútur að maður getur eitthvað ennþá," sagði Elfar.
Samningur Elfars hjá KA rennur út eftir tímabilið. Framtíð hans er í óvissu en Húsvíkingurinn hefur verið orðaður við Völsung sem tryggði sér sæti í Lengjudeildinni í sumar.
„Það getur vel verið. Ég er að renna út á samning eftir mánuð og það kemur í ljós hvað gerist á næstunni. Völsungur átti geggjað sumar í sumar og það verður flott að sjá þá í Lengjudeildinni, það verður bara að koma í ljós hvaða liði þeir stilla upp."