„Þetta var held ég bara nokkuð jafn leikur. Fínir spilkaflar hjá okkur í leiknum, svolítið klaufalegt mark sem við fáum á okkur, en við sýnum karakter og komum til baka," sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson leikmaður Vestra eftir 1-1 jafntefli gegn Aftureldingu.
Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 1 Vestri
Vestra liðinu gekk illa að skapa færi í leiknum en það breyttist aðeins eftir að þeir lentu undir.
„Við töluðum um það í hálfleik að skjóta aðeins á þetta mark. Það þurfti greinilega eitthvað til, ég veit ekki hvort hann hafi þurft að verja einhverja bolta í þessum leik hjá okkur. Við þurfum að skjóta meira á markið það er nokkuð ljóst," sagði Eiður.
Margir leikmenn Vestra eru að renna út á samning eftir tímabilið en Eiður er einn af þeim. Hann semur líkast til ekki áfram við félagið.
„Ég er samningslaus eftir tímabil, og fókusinn er bara búinn að vera á að klára þessa deild. Ég er að flytja í bæinn þannig mér finnst mjög ólíklegt að ég verði áfram," sagði Eiður.
Þrátt fyrir það er hann þó staðráðinn í að skilja ekki við liðið í Lengjudeildinni.
„Það er ekkert annað í boði, ég vil ekki einu sinni tala um það ef það fer allt illa. Það væri frábært að skilja við liðið í efstu deild og í Evrópukeppni," sagði Eiður.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.