Ari Sigurpálsson var niðurlútur eftir 2-0 tap Víkings R. á útivelli gegn Panathinaikos í Sambandsdeildinni fyrr í kvöld.
Víkingar spiluðu góðan leik og voru óheppnir að tapa, hvað þá með tveimur mörkum. Þeir voru slegnir úr leik í Sambandsdeildinni 3-2 samanlagt eftir óvæntan 2-1 sigur í fyrri leiknum.
„Þetta er virkilega svekkjandi. Við lögðum allt í þetta, við vissum að þetta yrði erfiður leikur en við vorum grátlega nálægt þessu. Andstæðingarnir sköpuðu sér ekki mikið og ég fékk góðan séns á að skora. Þetta er mjög svekkjandi," sagði Ari í viðtali að leikslokum.
„Við sýndum í kvöld að við erum góðir í fótbolta. Við komumst ekki svona langt í þessari keppni bara á að vera góðir varnarlega. Við erum með fullkomið lið og erum búnir að sýna það."
Þó að það sé vissulega svekkjandi að komast ekki í 16-liða úrslitin þá náði Víkingur mögnuðum árangri, sérstaklega miðað við að markmiðið fyrir deildarkeppnina var að ná í eitt stig í. Víkingar gerðu gott betur og nældu sér í 8 stig til að komast í umspilsleik gegn Panathinaikos.
„Markmiðið var að ná í eitt stig og gera betur en Blikarnir gerðu á sínum tíma. Það er grátlegt að fara út svona því við vorum ekki yfirspilaðir eða neitt.
„Við áttum góðan fyrri leik sem við hefðum getað unnið 3-0 en hann endaði 2-1. Það er svo stutt á milli."
Athugasemdir