„Þetta var upp og niður. Góðir kaflar og slæmir kaflar. Skorum þrjú góð mörk og keyrum svolítið á þá í lokin. Sem sýnir að við erum í ágætis standi.“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson, fyrirliði Vals, eftir 3-1 útisigur á Þrótti í Lengjubikarnum í kvöld. Hólmar spilaði fyrri hálfleikinn en hann hefur verið að glíma við erfið meiðsli seinustu mánuði. Hann spilaði þá korter gegn ÍA seinustu helgi.
Stærstu fréttir ársins til þessa í íslenska boltanum eru án efa félagsskipti Gylfa Þórs til Víkings sem áttu sér stað í vikunni. Aðdragandinn var mjög áhugaverður en mikið hefur verið rætt og ritað um málið í fjölmiðlum. Hvernig sér Hólmar og leikmannahópurinn þetta?
„Frá okkur leikmönnunum var þetta ekki svona mikið mál. Það var auðvitað mikið fjallað um þetta í fjölmiðlum en frá okkar hlið erum við að missa frábæran leikmann og þurfum að stíga upp, mögulega að sækja einhvern annan en það kemur í ljós.“
„Við ræddum þetta allir saman. Þetta er blásið upp. Auðvitað fannst okkur hann ekki sýna sitt rétta andlit í leiknum gegn ÍA. Það vita það allir og hann viðurkennir það sjálfur. En eftir að hafa sagt það eru ýmsar leiðir sem menn nota til að losa sig og þetta er eitthvað sem hefur sést og er þekkt út um allan heim. Við missum góðan leikmann og auðvitað erum við ósáttir með það. En þetta er bara fótbolti og menn sem eru hér eftir þurfa að stíga upp og gera betur.“
„Auðvitað spilar hann part í því en það er margt annað sem kemur að borðinu og það er mjög erfitt að skella einhverri liðsheildarskuld á þjálfarann.“
„Það er alltaf mótiverandi að spila gegn Víkingum sem eru með frábært lið. Við þurfum að standa í hárinu á þeim. En auðvitað út á við er þetta smá krydd fyrir þessa leiki.“
„Eins og ég sagði áðan erum við ósáttir að missa góðan leikmann en það er ekki eins og þetta hafi staðið lengi yfir. Auðvitað viltu ekki hafa einhverja hluti hangandi í lausu lofti. Ef þetta var að fara að gerast þá er fínt að þetta sé búið og við getum farið að einbeita okkur að næstu verkefnum.“ sagði Hólmar að lokum um málefni Gylfa Sigurðssonar.
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir