Matthías Vilhjálmsson kom inn af bekknum í síðari hálfleik er Víkingur R. tapaði 2-0 á útivelli gegn Panathinaikos þrátt fyrir að hafa spilað góðan leik úti í Aþenu.
Matti gaf kost á sér í viðtal eftir lokaflautið og talaði um hvernig leikurinn spilaðist.
„Það er svekkjandi að þetta hafi gerst svona á lokasekúndunum en heilt yfir er ég ótrúlega stoltur af liðinu. Ég á kannski aðeins eftir að melta þetta. Það hefði verið gott að ná þeim í framlengingu þar sem leikjaálagið á þeim er búið að vera mjög mikið undanfarið. Við hefðum átt góða möguleika í framlengingunni," sagði reynsluboltinn sem var sérstaklega óhress með eina dómaraákvörðun í leiknum. Þá var sóknarmaður Víkinga að komast í dauðafæri en slóvenski dómari leiksins flautaði brot alltof snemma í stað þess að beita hagnaðarreglunni.
„Þeir byrjuðu betur en við unnum okkur inn í leikinn og fengum góð færi til að skora. Það var mjög svekkjandi þegar við fengum aukaspyrnu þegar okkar maður var að sleppa einn í gegn, það hefði getað breytt ansi miklu. En heilt yfir þá stóðum við okkur frábærlega.
„Við erum svekktir að hafa ekki farið áfram fyrst við vorum svona nálægt þessu en þetta fer í reynslubankann hjá leikmönnunum, félaginu og öllum sem standa í kringum þetta. Við erum allir í þessu til að reyna að hækka áhuga á íslenskum fótbolta. Það er geggjað að sjá stuðninginn frá öllum Víkingum og öðrum fótboltaáhugamönnum á Íslandi. Það er geggjað þegar við sameinumst í að bæta okkur. Þetta sýnir að í fótbolta kemst maður ansi langt á liðsheild og stemningu. Núna er bara undirbúningur fyrir Bestu deildina, það verður ansi skemmtilegt verkefni,"
Matti ræddi einnig um Gylfa Þór Sigurðsson sem Víkingur keypti frá Val af dögunum og segist vera gríðarlega spenntur fyrir að spila með einum af bestu fótboltamönnum Íslandssögunnar.
Við erum bara kominn þangað að vera helvíti svekktir að detta út fyrir Panathinaikos. Hrikalega stoltur af liðinu og geggjaður stuðningur frá svo mörgum, ekki bara Vikes stuðningsmönnum ????Höldum áfram að hækka rána í íslenskum fótbolta ????????????????
— MatthíasVilhjálmsson (@MattiVilla) February 20, 2025
Athugasemdir