Alexandra Jóhannsdóttir ræddi við Fótbolta.net fyrir fyrtu landsliðsæfingu kvennalandsliðið í undirbúningi sínum fyrir EM. Liðið æfði á Laugardalsvelli í dag en fyrsti leikur á EM fer fram þann 10. júlí á Akademíu leikvanginum í Manchester.
„Mér líst bara vel á þetta, ótrúlega gaman að vera loksins komnar saman og að það sé loksins komið að þessu. Ég er spennt og stolt, það er allavega ekkert stress ennþá, það kemur kannski fyrir fyrsta leik," sagði Alexandra.
Hún kom á láni til Breiðabliks í maí frá þýska félaginu Eintracht Frankfurt. Markmiðið var að fá mínútur til að undirbúa sig fyrir EM.
„Ég kom inn í liðið og þetta var breytt lið frá því ég var þar [tímabilið 2020]. Maður þarf alltaf tíma til að spila sig inn í liðið, ég hafði ekki spilað með þessum stelpum á miðjunni. En svo fannst mér þetta ganga ágætlega, fékk það sem ég vildi, fékk spiltíma og það var það sem ég var að leitast eftir."
Alexandra fer aftur til Frankfurt þegar EM lýkur, á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.
Spurð út í samkeppnina í landsliðinu, og þá sérstaklega um stöðu á miðsvæðinu: „Ég held það sé bara erfitt að komast í liðið á mörgum stöðum. Við erum með ótrúlega flottan hóp, 23 leikmenn sem geta allir spilað. Þetta verður hausverkur fyrir Steina."
Athugasemdir