Rabiot nálgast Man Utd - Mount til sölu - Branthwaite fær stórbættan samning - Kante hefur náð samkomulagi við West Ham
   fim 20. júní 2024 11:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segir Gregg ekki hafa misst klefann - „Hundleiðinlegt fyrir alla"
Theódór Elmar Bjarnason.
Theódór Elmar Bjarnason.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Rekinn í morgun.
Rekinn í morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR fagnar marki.
KR fagnar marki.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Það er alltaf ógeðslega leiðinlegt þegar þjálfarar eru látnir fara," segir Theódór Elmar Bjarnason, fyrirliði KR, um þær fréttir sem bárust núna í morgun um að Gregg Ryder hefði verið látinn fara sem þjálfari KR.

Illa hefur gengið hjá liðinu og eftir tap gegn ÍA á þriðjudag er það með ellefu stig, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti í Bestu deildinni.

Í gær fóru svo háværar sögusagnir í gang um að Gregg væri kominn að leiðarlokum hjá félaginu. Stjórnin kom saman og var leikmönnum tilkynnt um niðurstöðuna í morgun.

„Við eigum stóran hluta af því að hafa ekki staðið okkur betur," segir Elmar. „Þetta er hundleiðinlegt fyrir alla sem eiga í hlut. Mögulega er þetta eitthvað sem þurfti að gera. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Hann var alls ekki búinn að missa klefann eða neitt svoleiðis. Hann átti í góðu sambandi við alla leikmennina."

„Þetta var eitthvað sem félagið taldi nauðsynlegt til að ná í úrslit og við styðjum félagið. Það koma frábærir menn inn í staðinn og við þurfum að horfa fram á við."

Þetta er alltaf hundleiðinlegt
Elmar segist hafa kunnað vel við það að vinna með Gregg.

„Mér finnst Gregg frábær náungi. Hann kemur rosalega vel fyrir. Hann er ungur og óreyndur, en mér finnst hann frábær þjálfari. Hann er 'all in' í öllu því sem hann gerir. Hann er með fullt af flottum pælingum sem við náðum bara ekki að útfæra nógu vel. Eins og við vitum er þetta bara úrslitabransi og því fór sem fór."

KR byrjaði vel í sumar og var góð tilfinning í kringum félagið, en á síðustu vikum hefur margt farið úrskeiðis.

„Maður er með alls konar kenningar um hvað var sem olli því að við tókum þessa dýfu. Mér finnst við ekki geta sett puttann á einn hlut. Það var eitthvað sjálfstraustsleysi mögulega. Kannski tók það taktinn úr liðinu að æfa lengi á lélegu grasi. Það eru alls konar pælingar sem er hægt að fara út í. Á endanum er það samspil margra þátta og þá verðurðu að leita hvar er hægt að breyta."

„Þetta er alltaf hundleiðinlegt. Það er frábær maður að missa starfið sitt. Þér líður alltaf eins og þú eigir hlut í því að hann sé að missa starfið sitt. Það er leiðinlegt. Við verðum að draga strik í sandinn og fókusa á næsta leik sem er gegn Víkingi eftir tvo daga. Ég er viss um að við munum rífa okkur í gang en þetta er alveg hundleiðinlegt."

Hef fulla trú á þessum hóp
Pálmi Rafn Pálmason, sem var hefur verið aðstoðarþjálfari Gregg hjá KR, mun stýra liðinu í leik liðsins á móti Víkingi næstkomandi laugardag.

„Við þekkjum Pálma allir rosalega vel. Hann er frábær náungi og hefur komið með skemmtilegar pælingar með Gregg. Ég efast ekki um að hann muni stíga upp og leiða liðið áfram á sigurbraut. Ég hef fulla trú á þessum hóp. Við erum með fullt af frábærum leikmönnum og við þurfum að finna það sem lætur okkur tikka. Ég hef trú á að það muni gerast núna," sagði Elmar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner