Hákon Arnar Haraldsson var í dag kynntur sem nýr leikmaður Lille á fjölmiðlafundi. Skagamaðurinn ungi var keyptur til Lille frá FC Kaupmannahöfn í vikunni fyrir 17 milljónir evra.
Hinn tvítugi Hákon er núna einn af tíu dýrustu leikmönnum í sögu Lille, sem er eitt stærsta félagið í Frakklandi.
Hinn tvítugi Hákon er núna einn af tíu dýrustu leikmönnum í sögu Lille, sem er eitt stærsta félagið í Frakklandi.
„Mér fannst ég þurfa að prófa mig í stærri deild og ég kunni vel við leikstíl. Þetta var ákvörðun sem ég þurfti lítið að hugsa um," sagði Hákon við fréttamenn í Frakklandi í dag. Hann greindi frá því á fundinum að hann muni spila í tíuhlutverki hjá liðinu, fyrir aftan sóknarmanninn.
„Þetta er stórt félag í Frakklandi sem er með metnað til að vinna titla. Ég þekkti marga leikmennina hérna þar sem ég spila tölvuleikinn FIFA mikið. Þeir hafa allir tekið vel á móti mér, meira að segja stærstu stjörnurnar í liðinu. Þetta eru mjög góðar manneskjur," sagði Skagamaðurinn.
Mikill heiður
Hann er fyrsti Íslendingurinn sem gengur í raðir Lille en það var svo tilkynnt í morgun um annan Íslending. Bróðir Hákons, Haukur Andri, skrifaði þá undir samning við félagið sem gildir til ársins 2026. Haukur er sautján ára, fæddur árið 2005, og kemur upp úr yngri flokka starfi ÍA. Hann spilaði sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk ÍA í Bestu deildinni í fyrra og eru meistaraflokks leikirnir samtals orðnir 35 og mörkin fjögur. Haukur mun spila í unglingaliðum Lille.
„Planið mitt er alltaf að spila eins mikið og mögulegt er. Ég vil komast í byrjunarlið landsliðsins og auðvitað líka hérna. Ég er mjög metnaðargjarn að spila eins marga leiki og hægt er."
„Það er mikill heiður að vera fyrsti Íslendingurinn til að klæðast þessum litum og það er enn betra þegar bróðir minn er mér við hlið. Þetta er mikill heiður. Það er alltaf gott að hafa bróður minn í kringum mig. Ég hef trú á honum. Hann þarf að leggja mikið á sig til að komast í aðalliðið en ég hef trú á því að hann geti náð því," sagði Hákon.
Þarf að læra tungumálið
Fyrstu dagarnir í Frakklandi hafa verið góðir fyrir Hákon en hann segir að það verði erfiðast að læra tungumálið. „Ég skil ekki orð í frönsku sem er mjög frábrugðin íslensku. Ég þarf að læra það," sagði leikmaðurinn en hægt er að sjá fundinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Sjá einnig:
„Allir kennararnir í framhaldsskólanum kalla mig Hákon"
Athugasemdir