„Ég hlakka mjög mikið til. Það er langt síðan við höfum spilað keppnisleik þannig að það verður gaman," sagði Hlín Eiríksdóttir, framherji landsliðsins, í samtali við Fótbolta.net fyrir landsliðsæfingu í morgun.
Á föstudaginn spilar Ísland sinn fyrsta leik í Þjóðadeildinni er þær mæta Wales á Laugardalsvelli. Svo spilar þær við Þýskaland ytra.
„Það er gaman að koma til Íslands, það er geggjað veður. Þetta er mjög gaman."
Á sínu fyrsta tímabili með Íslendingaliði Kristianstad
Hlín er á sínu fyrsta tímabili með Kristianstad í Svíþjóð en það er mikið Íslendingafélag. Hún hefur verið að spila vel og er búin að skora átta mörk í 20 deildarleikjum.
„Þetta hefur verið góður tími. Spilamennskan hefur verið góð upp á síðkastið þannig að akkúrat núna líður mér frábærlega. Mér finnst ég vera að bæta mig mikið," segir Hlín.
„Persónulega finnst mér ég hafa verið sæmilega stöðug í gegnum tímabilið. Við erum búnar að vinna tvo leiki í röð núna sem er sterkt hjá okkur."
Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad. Hvernig er að vinna með henni?
„Það er frábært, algjörlega frábært. Hún er ótrúlega góður þjálfari og góð manneskja. Hún er einstök að mörgu leyti. Ég hef lært helling, sérstaklega taktískt og alveg frá því ég fór til Svíþjóðar. Ég er búin að bæta mig taktískt alveg endalaust frá því ég kom þangað fyrst og ég hef haldið áfram að gera það hjá Betu."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan þar sem Hlín fer meira yfir verkefnið sem framundan er.
Ísland spilar við Wales á föstudaginn. Miðasala á leikinn gegn Wales er í fullum gangi á tix.is ásamt því að mótsmiðasala á heimaleiki liðsins í keppninni verður í gangi fram að leik á föstudag.
Athugasemdir