Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fös 20. október 2023 15:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Óskar Örn í nýju starfi: Of spennandi til að taka ekki slaginn
Óskar Örn Hauksson.
Óskar Örn Hauksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi Geir Ottesen og Arnar Gunnlaugsson, þjálfarar Víkings.
Sölvi Geir Ottesen og Arnar Gunnlaugsson, þjálfarar Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingar eru ríkjandi Íslandsmeistarar.
Víkingar eru ríkjandi Íslandsmeistarar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Einn besti fótboltamaður sem hefur spilað í efstu deild.
Einn besti fótboltamaður sem hefur spilað í efstu deild.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Örn Hauksson var fyrir viku síðan ráðinn sem styrktarþjálfari meistaraflokks karla hjá Íslandsmeisturum Víkings. Þetta voru tíðindi sem komu nokkuð á óvart en Óskar hafði þá tiltölulega nýlokið við tímabil sem leikmaður Grindavíkur í Lengjudeildinni.

„Ég fæ símhringingu og er spurður hvort ég hefði áhuga á þessu. Svo fórum við að ræða þetta fram og til baka. Á endanum var þetta niðurstaðan," segir Óskar í samtali við Fótbolta.net í dag um nýja starfið sitt.

Kom alveg óvænt upp
Óskar er leikjahæsti leikmaður efstu deildar karla frá upphafi en hann á samtals 19 tímabil í efstu deild og spilaði samtals 373 leiki og skoraði í þeim 88 mörk. Samtals á Óskar 23 ár í meistaraflokki og spilað 709 leiki samtals og skorað í þeim 197 mörk. Hann lék lengst af með KR og er einn besti leikmaður í sögu efstu deildar.

Hann er einnig menntaður íþróttafræðingur frá HR og útskrifaður úr ÍAK styrktarþjálfunnám frá Keili. Hann tekur núna við nýju hlutverki og er spenntur fyrir því.

„Ég skal viðurkenna að þetta kom alveg óvænt upp. Ég var ekkert búinn að vera að selja mig neitt á þessum nótum. Auðvitað þurfti ég að hugsa þetta aðeins en þetta er rosalega spennandi að því leytinu til að það er ótrúlega flott umhverfi í Víkingi. Þetta er besta liðið í dag og ég sé ekki að það sé að fara breytast neitt á næstunni. Þeir verða þarna uppi að keppa um þetta allt næstu árin," segir Óskar.

Viktor Bjarki Arnarsson, fyrrum liðsfélagi Óskars í KR, hóf nýverið störf sem yfirþjálfari í Víkingi. Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá félaginu, segir að nafn Óskar hafi komið inn á borð hjá Víkingum í kjölfarið á því.

„Viktor Bjarki er kominn til starfa hjá okkur. Hann þekkir Óskar mjög vel og vissi að hann væri á þessari línu svolítið. Við könnuðum það í framhaldinu og töluðum svo við hann. Okkur fannst hann henta vel fyrir okkur, hann er frábær náungi," segir Kári í samtali við Fótbolta.net.

Tækifæri sem ekki var hægt að sleppa
Óskar segir það gríðarlega spennandi að vinna með Arnari Gunnlaugssyni sem hefur unnið fjölda titla með Víkingum og sannað sig sem einn besti þjálfari okkar Íslendinga.

„Að vinna með Arnari, Sölva og Kára, það er tækifæri sem mér fannst ég ekki geta sleppt. Ég horfi á þetta þannig að ég er að fara í skóla. Maður þarf að vera duglegur og sniðugur að taka inn alla vitneskjuna og allt annað í þessu. Það (að vinna með þessum þjálfurum) er klárlega stór partur af því að ég ákvað að taka þessu," segir Óskar.

„Ég hef alltaf verið að hugsa um sjálfan mig, en ég hef ekki verið í þessu liðsumhverfi þannig. Það er klárlega nýtt og verður skemmtileg áskorun. Ég hef verið lengi í fótbolta og mér hefur tekist að sjá vel um sjálfan mig. Ég hef haft ótrúlega marga mismunandi þjálfara í þessum efnum og það hjálpar. Maður reynir að gera hlutina eins og ég held að þeir séu best gerðir."

„Í og með hefur maður hugsað um þetta. Ég hef haft áhuga á þessum þætti leiksins alla tíð. En eins og ég sagði áðan, þá mest út frá sjálfum mér og að hámarka sjálfan mig. Ég hef ekki verið að stefna í þetta beint en svo koma tækifæri eins og þetta. Þá þarf maður að hrökkva eða stökkva. Mér fannst þetta of spennandi dæmi til að taka ekki slaginn."

Hættur í fótbolta?
Óskar er líkt og áður segir einn besti leikmaður í sögu efstu deildar. Hann er ekki búinn að gefa það út að hann sé hættur sem leikmaður og spurning hvort Víkingar horfi kannski í það líka. Hver veit?

„Það kemur þá bara að þeim tímapunkti að ég tilkynni það formlega. Eins og staðan er núna er ég í þjálfarateymi Víkings. Ég nenni ekki að segja að ég sé hættur og svo dett ég kannski inn í leiki einhvers staðar einhvern tímann. Ég nenni ekki að tilkynna það mörgum sinnum. Ég ætla að vera með það alveg á hreinu þegar ég tilkynni það," segir Óskar og bætti við:

„Ég er að byrja í þessu þjálfarateymi hjá Víkingi og ég er gríðarlega spenntur fyrir því."
Athugasemdir
banner
banner