Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   sun 20. nóvember 2022 11:36
Brynjar Ingi Erluson
Ósáttur við vinnubrögð Barcelona - „Pirrandi að félagið hafi gert þetta"
Frenkie de Jong
Frenkie de Jong
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Hollenski miðjumaðurinn Frenkie de Jong er ekki sáttur við stjórnarmenn Barcelona en hann segir að félagið hafi lekið atriðum úr samningi hans í spænska fjölmiðla.

Barcelona reyndi að losa sig við De Jong í sumar en þessi 25 ára gamli miðjumaður kom til félagsins frá Ajax fyrir þremur árum.

Hann er launahæsti leikmaður félagsins og komu öll atriði fram í spænskum miðlum. Stjórnarmenn efuðust um að samningur hans væri löglegur þar sem Josep Bartomeu, fyrrum forseti félagsins, sá um samningamálin.

De Jong er mjög ósáttur við vinnubrögð félagsins en hann vill samt sem áður halda áfram að spila með spænska stórliðinu.

„Ég er mjög ánægður í Barcelona. Það er frábært þegar ég spila og lífsgæðin þarna eru frábær. Ég sé fyrir mér að spila hjá Barcelona eins lengi og möguleiki er á og ég vona að það verði næstu átta til tíu árin,“ sagði De Jong.

„Ég kenni þessu fólki um, en ég hef ekkert með það fólk að gera. Já, þetta fólk er Barcelona fyrir mér því það leiðir klúbbinn áfram, en ég sé það ekki þegar ég er hjá félaginu. Þetta er ekki fólk sem er í mínu lífi dags daglega.“

„Einn daginn birtir blað atriði úr samningnum mínum. Ég lak þessu ekki og aðeins einn annar aðili vissi af þessu, þannig þetta hlýtur að hafa verið félagið sem lak þessu. Allt í einu kom svo bréf þar sem það var efast um gildi samningsins því fyrrum forseti félagsins bjó til samninginn. Mér fannst mjög pirrandi að félagið hafi gert þetta, en ég hafði engin önnur áhrif á þessa hluti.“


De Jong heldur því fram að Xavi hafi alltaf viljað halda honum og ætlar hann ekki að skella skuldinni á spænska þjálfarann.

„Aldrei fann ég fyrir því að Xavi væri eitthvað á móti mér. Hann sagði við fjölmiðla að hann væri ánægður með mig en að svo væri auðvitað fjárhagsleg hlið félagsins inn í dæminu. Ég held að það hafi verið erfitt fyrir hann að tala um þetta. Hann er ekki sá sem tekur ákvarðanirnar.“

„Hann hélt möguleikanum opnum að ég gæti farið frá félaginu því hann kom aldrei fram og sagði: „Frenkie verður áfram sama hvað“, en ég kenni honum ekki um,“
sagði De Jong við Telegraaf.
Athugasemdir
banner
banner