Guehi til Liverpool - Salah kennt um erfiðleika Wirtz - Tottenham vill markmann - Tchouameni til Man Utd og Toney til Englands
banner
   fim 20. nóvember 2025 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Mjög mikilvægt að fá svona leikmann inn"
Birnir Ingason.
Birnir Ingason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benedikt Warén.
Benedikt Warén.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birnir Snær Ingason samdi undir lok síðasta mánaðar við Stjörnuna eftir að hafa leikið með KA seinni part sumars. Hann átti frábært tímabil 2023 með Víkingi og fór í kjölfarið til Halmstad í Svíþjóð, en þar gengu hlutirnir ekki upp.

Birnir er vinstri kantmaður sem skoraði fimm mörk í tólf deildarleikjum með KA og hjálpaði liðinu að enda í 7. sæti eftir að hafa verið í brasi í deildinni framan af móti. Fótbolti.net ræddi við Jökul Elísabetarson, þjálfara Stjörnunnar um liðsstyrkinn.

„Það er frábært að ná að landa honum, auðvitað frábær leikmaður og hann kemur mjög vel fyrir sem karakter. Hann á eftir að styrkja liðið," segir Jökull.

Stjarnan er með öfluga kantmenn í liðinu eins og Benedikt Warén og Örvar Eggertsson, en liðið er á leið í Evrópuleiki næsta sumar. Er Jökull að horfa í að álagið á liðinu verði meira á næsta tímabili, eða er hann að bæta í samkeppnina?

„Það verður meira álag, en stærsta málið er að þegar hægt að fá inn skapandi leikmann sem getur brotið leikina upp, er bæði sterkur í því og líka mikill liðsmaður, þá er það mjög spennandi."

„Ég átta mig á því að Birnir spilar í grunninn sömu stöðu og Benó, en þeir geta báðir svo sem spilað margar stöður. Þeir búa yfir mikið af sömu eiginleikunum; eru báðir góðir með boltann og með mikinn leikskilning, góðir að finna svæði. Við erum ekki með of mikið af svona leikmönnum og fyrir mig var mig var mjög mikilvægt að fá svona leikmann inn,"
segir Jökull.
Athugasemdir
banner