„Við vorum bara í flugvélinni. Um leið og við lentum í Keflavík vorum við fljótir að kveikja á símanum til að tékka á því," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, við Fótbolta.net aðspurður út í dráttinn í Sambandsdeildinni í dag.
Víkingur tryggði sér í gær sæti í umspili Sambandsdeildarinnar í gærkvöldi. Liðið gerði jafntefli gegn austurríska liðinu LASK á útivelli og endaði í 19. sæti af 36 í deildarkeppninni. Víkingar unnu tvo leiki og gerðu tvö jafntefli og enduðu því með átta stig. Víkingur skrifaði söguna þegar liðið vann sinn fyrsta leik í keppninni og hélt svo áfram að skrifa hana í gær
Víkingur tryggði sér í gær sæti í umspili Sambandsdeildarinnar í gærkvöldi. Liðið gerði jafntefli gegn austurríska liðinu LASK á útivelli og endaði í 19. sæti af 36 í deildarkeppninni. Víkingar unnu tvo leiki og gerðu tvö jafntefli og enduðu því með átta stig. Víkingur skrifaði söguna þegar liðið vann sinn fyrsta leik í keppninni og hélt svo áfram að skrifa hana í gær
Í dag var dregið í umspilið og mun Víkingur mæta gríska félaginu Panathinaikos í tveggja leikja einvígi þar sem sigurvegarinn fer í 16-liða úrslit keppninnar. Leikirnir fara fram 13. og 20. febrúar, um 15 mánuðum eftir að Víkingur hóf undirbúningstímabilið sitt fyrir tímabilið 2024.
„Við erum bara spenntir. Það er virkilega gaman að mæta Sverri (Inga Ingasyni) og Herði (Björgvini Magnússyni). Þetta er gríðarlega sterkt og sögufrægt félag í Grikklandi. Ég held strákarnir séu allir bara spenntir," segir Arnar.
Skilaboðin einföld fyrir leik
Víkingar náðu í góð úrslit í gær og tryggðu sig áfram með þeim. LASK var í efsta styrkleikaflokki fyrir dráttinn.
„Skilaboðin voru bara einföld fyrir leik: Komast áfram sama hvað það kostaði. Menn þurftu að leggja á sig gríðarlega mikla vinnu," segir Arnar.
„Fyrri hálfleikurinn var sterkur. Bæði lið fengu sín tækifæri og áttu augnablik. Í seinni hálfleik fórum við ósjálfrátt að bakka niður. Það gekk alveg ágætlega þó manni hafi ekki liðið alltof vel á tímabili. Það var ljúft að sjá rangstöðumarkið. Enn og aftur er VAR og tæknin að gera góða hluti fyrir okkur í Evrópukeppninni. Ég held að við séum búin að fá fimm eða sex víti í Evrópukeppninni í 14 leikjum held ég. Við fáum tvö víti í Bestu deildinni í 27 leikjum. Það er óhætt að segja að ég er mikill aðdáandi VAR."
„Varnarleikurinn var sterkur hjá okkur og vinnusemin var mikil. Það vantaði upp á það í seinni hálfleik að halda boltanum aðeins betur. Það fór gríðarleg orka í þennan leik. Við þurftum bara að sigla þessu heim og ekkert þurfa að treysta á aðra. Þetta voru langar 45 mínútur í seinni hálfleik en það var gott að klára þetta á okkar eigin forsendum."
Menn eiga skilið að fara í smá frí
Arnar segir að það hafi verið ólýsanlegt að fagna þessum úrslitum inn í klefa eftir leikinn.
„Þetta er bara ólýsanlegt. Þetta hefur verið mikill tilfinningarússíbani; allir þessir leikir og öll þessi ferðalög. Það voru vonbrigði í bikarúrslitunum og í úrslitaleiknum gegn Blikum í deildinni, en þetta hefur verið magnað ævintýri. Ótrúlega krefjandi en skemmtilegt að baki. En það er bara tímabundið. Menn eiga skilið að fara í smá frí en við mætum svo sterkir til leiks í janúar og ætlum að reyna að halda þessu ævintýri áfram," segir Arnar.
Leikmenn Víkings fara núna í smá jólafrí og koma til baka í janúar til að undirbúa sig fyrir Panathinaikos.
„Ég held að allir hafi gott af því að kúpla sig smá út núna. Þeir eiga það skilið og það er bara hollt. Endurhlaða batteríin og mæta sterkir til leiks á næsta ári," segir Arnar.
Ótrúlegt ár
Að komast áfram í Sambandsdeildinni er magnað afrek. Þarftu einhverjar fleiri jólagjafir?
„Þetta er búið að vera ótrúlegt ár. Maður varð faðir í febrúar og afi í september. Svo spilum við úrslitaleik í bikar og úrslitaleik í Íslandsmótinu, og svo þetta. Það væri græðgi að fara fram á eitthvað meira. Þetta hefur verið ótrúlegt ár sem fer senn að ljúka. Svo byrjar næsta ár með sprengju. Maður þarf stundum bara að klípa sig hvað félagið er búið að ná langt á stuttum tíma. Við erum að fara að mæta Panathinaikos," segir Arnar.
„Blikarnir gerðu frábærlega í fyrra og við erum að fylgja því eftir núna. Vonandi geta fleiri lið fylgt okkur eftir þannig að íslenskur fótbolti haldi áfram að vaxa og dafna."
Menn eru farnir að tala um mögulega lengst tímabil fótboltasögunnar en Víkingar kvarta ekki.
„Þetta hefur verið andlega og líkamlega krefjandi tímabil. Þegar mönnum hefur dreymt um þetta lengi og talað um þetta lengi er erfitt að kvarta og kveina. Þetta eru forréttindi," segir Arnar að lokum.
Athugasemdir