Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   þri 21. febrúar 2017 16:30
Magnús Þór Jónsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Nóg um Gylfa og Margréti - hvar eru næstu Aron og Edda?
Leitin er hafin
Magnús Þór Jónsson
Magnús Þór Jónsson
Það eru margar
Það eru margar "Margrétar Lárur" á íslenskum stelpnamótum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verður hægt að fylla skarð drengins úr Glerárþorpi?
Verður hægt að fylla skarð drengins úr Glerárþorpi?
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Munu hæfileikar N'Golo Kante verða til þess að fleiri honum líkir ná framgangi í alheimsfótboltanum?
Munu hæfileikar N'Golo Kante verða til þess að fleiri honum líkir ná framgangi í alheimsfótboltanum?
Mynd: Getty Images
Kári og Raggi voru frábærir á EM.
Kári og Raggi voru frábærir á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er verið að finna næstu Eddu Garðars á Íslandi?
Er verið að finna næstu Eddu Garðars á Íslandi?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti er dásamleg íþrótt. 11 einstaklingar í flottu formi dásamlega hæfileikaríkir senda á milli sín leðurbolta sem verður stöðugt léttari og meðfærilegri. Stuttar og langar sendingar um allt, hratt knattrak hægri vinstri og nú gera menn þreföldu skærin á ferðinni töluvert hraðar en hraðklipparinn Denilson náði að gera sín hefðbundnu einföldu á sínum tíma með Real Betis og brasilíska landsliðinu. Mörk úr öllum áttum og alla unga knattspyrnuiðkendur dreymir um að verða gaurinn eða gellan sem skrúfa boltann í markvinkilinn og allir fagna.

Þetta verður maður áþreifanlega var við hjá yngri iðkendum. Það er slegist um sóknarstöðurnar fremst á vellinum enda afar algeng spurning að leik loknum í minniboltanum „hvað skoraðirðu mörg mörk“? Hvort sem okkur líkar það betur og verr þá hefur áherslan á þessa spurningu bara aukist, jafnvel þó vissulega sé umræða um að áherslur í umræðu um yngri liða fótbolta eigi að vera aðrar.

Enginn má misskilja það, undirritaður lét sig líka dreyma sem ungur maður á síðasta fjórðung síðustu aldar um svipaða hluti. Var Rush, Zico og Maradona á leikvöllum barnæskunnar allt þar til að hrifning á marglitum peysum og enn skrautlegri markmannshönskum breytti leikstöðunni. Var samt eins og Grobbelaar, vildi fá að æfa úti líka, þorði því þó ekki svo glatt þegar kjúklingurinn fékk að fara á meistaraflokksæfingu. Það er alltaf þannig að horft er til hetjunnar þegar mann langar að vera hetja. Augljóst mál að fyrirmyndir jafn frábærar og Gylfi okkar eða Lionel Messi gleðja okkur með snilld þá hristum við hausinn og viljum sjá meira af slíku.

Vandinn er bara sá…að ef að allir eiga sama drauminn og verða steyptir í það mót þá verður lítið úr fjölbreytileikanum. Þessir kappar hafa ákveðin hlutverk í sínum liðum og þeir búa svo vel að hafa átt leikmenn með sér sem hafa unnið ákveðin „skítverk“ fyrir þá, leikmennirnir sem verja svæðin fyrir aftan þá og vinna boltann til að skila í fætur þeirra.

Þessir leikmenn eru ekki alveg eins glatt þeir sem ungu iðkendurnar dreymir um að verða, svo ég vitni í eðaldrenginn Jamie Carragher sem sagði í beinni í fyrra; „Það dreymir engan um að verða næsti Gary Neville“. Ansi hörð orð en það er í þeim innihaldsríkur tónn og eitthvað sem vert er að gefa gaum, ekki síst okkur Íslendingum.
Liðið sumar sáum við „strákana okkar“ ná langt. Þeir urðu eftirlæti heimsbyggðar og perlur okkar allra. Eftir mótið fór svo að mikið af umfjölluninni fór í að velta upp hlutum eins og fótboltavakningu þjóðarinnar, við vildum endurráða Lars og viðtöl fóru víða þar sem þeir sem skoruðu sigurmörkin eða léku í þeim lykilhlutverk fóru í viðtöl.

Ég eignaðist þrjá uppáhaldsleikmenn í mótinu. Raggi og Kári voru miðvarðapar þessa móts og Þorparinn andlitshærði Aron Einar var að mínu mati að sína bestu frammistöður „skítverkaleikmanns“ frá upphafi íslensks landsliðs. Og eigum við þó marga um þá hituna frá því við hófum að verjast útlenskum landsliðum.

Þarna fóru strangheiðarlegir leikmenn sem þekktu sitt hlutverk, fengu jafnmikið upp úr hverri tæklingu og hverju skemmdarverki fyrir andstæðinginn og Gylfi fær út úr stoðsendingum og Kolbeinn hverju marki. Þeirra frammistöður fóru auðvitað víða líka en á annan hátt, stundum er látið eins og það sé einfaldara að sinna þessum hlutverkum í knattspyrnu en því að taka skærin áður en varnarmaður er klobbaður. Ekki rétt…því góður varnarmaður er ekki klobbaður líkt og hann Ronaldo vinur minn uppgötvaði í fyrsta leik.

Það er mikið umhugsunarefni hvort að í nútímaþjálfun er nægilega horft til þessara eiginleika. Þegar við fáum í hendur 7 – 11 ára efnilegan strák eða stelpu sem er bara ansi klár í fótbolta, hefur fína tækni á flestan hátt og góðan leikskilning. Setjum við slíkan leikmann einhvern tímann í vörnina því við viljum sjá viðkomandi taka ábyrgð á varnarleik frá fyrstu hendi? Höfum við kjark í að halda því áfram ef að leikmaðurinn eða jafnvel forráðamaðurinn setur pressu á það að viðkomandi „á nú betur heima framar á vellinum“? Lykilspurning.

Ég las einu sinni um hæfileikaríkan leikmann sem átti þó í þeim vanda að „djöflast“ eilítið mikið í leikjum sínum sem unglingur. Fékk rauð spjöld og var töluvert mikið meiddur. „Hrár talent“ eins og breskir samlandar hans nota oft um slíka leikmenn, með mikinn sigurvilja en þarfnaðist leiðsagnar. Þegar hann var enn ungur leikmaður kom til liðsins hans stjóri sem hafði mikla trú á ungum leikmönnum og þá sérstaklega þessum. Gerði sér far um að leiðbeina honum og heimtaði það að líkami hans yrði grandskoðaður svo að hægt væri að átta sig á því hvað þar væri að angra hann. Viðkomandi var sterkur varnarsinnaður miðjumaður og breyttist í box-to-box miðjumann. Næsti stjóri tók við og þrýsti honum ofar á völlinn þar sem skyndilega var kominn sá heimsklassaleikmaður sem Steven Gerrard var. Í kjölfarið hefur í klúbbnum hans reglulega verið reynt að finna slíkan leikmann og þar komið nöfn sem ekkert verður svo úr. Stundum spyr ég mig hvort að eins hefði farið fyrir honum og þeim í nútímafótbolta?

Hvað gerum við í þeim sporum sem ég lýsi hér að ofan sem þjálfarar? Fá „hráu talentarnir“ sem hafa þessa eiginleika sem Gerrard hafði sömu möguleika í eldri unglingaflokkum þegar þeir eiga í samkeppni við tæknilega betri og yfirvegaðri einstaklinga? Höfum við kjark til að fórna pínu af „fegurðinni sem liggur í færninni“ til að þjálfa hæfileika sem hjálpa ekki minna við það að ná sigri, en vissulega ekki með sömu fágun.

Enn koma þó upp ný nöfn og í dag er yfirburðamaður ensku deildarinnar í raun annar en sá sem selur flestar treyjur. Þar er ég að tala um N‘Golo Kante sem verður væntanlega meistari annað árið í röð í algeru lykilhlutverki, nú með Chelsea. Það er akkúrat engin tilviljun að Leicester með allan sinn skyndisóknafótbolta í fyrra hafi hrunið við brotthvarf hans. Það verður gerð bíómynd um Jamie Vardy…og Mahrez fær sennilega séns hjá öðru stórliði. Kante verður hins vegar áfram sigurvegari.

Engir leikmenn lifa að eilífu, alveg sama hvaða leikstöður þeir spila og hvaða hæfileika þeir geyma. Það er alltaf verkefni samtímans að gera „næsta“ þennan og hinn.

Við verðum að treysta á að á Íslandi í dag sé verið að finna næstu Eddu Garðars og næsta Aron Einar til að aðstoða Margréti Láru og Gylfa framtíðarinnar.

Þá munum við klárlega heyra áfram víkingaklapp af stórum völlum líkt og heyrðist í Frakklandi liðið sumar og mun hljóma í Hollandi næsta sumar!!!
Athugasemdir
banner
banner
banner